144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[21:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmönnum sem margir hafa verið í málefnalegri umræðu um þetta mál um tekjuskatt, sem nr. 356. Sérstaklega þakka ég framsögumanni minnihlutaálits, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, fyrir greinargóða umfjöllun um málið.

Ef ég byrja á að fara yfir tilvísun til leiðbeiningarreglna OECD um milliverðlagningu, sem var samþykkt við 2. umr. en lagt er til í frumvarpinu að verði felld út. Í athugasemdum með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Lagt er til að beinar tilvísanir til leiðbeiningarreglna OECD um milliverðlagningu verði felldar brott enda ekki nauðsynlegt að vísa með beinum hætti til þeirra í lagagreininni sjálfri. Leiðbeiningarreglur OECD um milliverðlagningu verða eftir sem áður mikilvæg heimild við beitingu milliverðlagningarreglna á Íslandi rétt eins og í öðrum ríkjum OECD enda eru íslensku reglurnar byggðar á þeim grundvallarreglum sem þar koma fram. Hér eru því ekki lagðar til neinar efnislegar breytingar á núgildandi reglum um milliverðlagningu sem er að finna í 3.–6. mgr. 57. gr. tekjuskattslaga.“

Það er að sjálfsögðu lykilatriði að ekki er verið að gera efnislegar breytingar. Hins vegar kom fram fyrir nefndinni að þar sem þessar reglur eru á ensku og enginn ætlar að þýða þær sé ekki eðlilegt að vísa til þeirra með beinni lagatilvísun. Það var í rauninni sú skýring sem kom fram.

Ef við förum síðan í skjölunarskylduna var í raun engin breyting gerð á henni í frumvarpinu eins og það var lagt fram. Hins vegar voru komnar fram ábendingar til nefndarinnar fyrir 2. umr. um að það kynni að þarfnast endurskoðunar og við fjölluðum töluvert um það í nefndinni þá. Við fengum svo enn frekari ábendingar í framhaldi af því að fram fór undirbúningur og vinna við reglugerð um framkvæmd milliverðlagningarinnar, þ.e. hvernig fyrirtæki skyldu vinna þá vinnu. Síðan komu ábendingar bæði frá atvinnulífinu og fjármálaráðuneytinu úr þeirri vinnu um að eðlilegt væri að fara betur yfir málið.

Í framhaldi af því varð það niðurstaða meiri hlutans að fara þá leið að fella niður skjölunarskyldu innlendra aðila sem eingöngu eru í viðskiptum við aðra innlenda aðila. Það er rétt að fram komi að ef eitt fyrirtæki í samstæðu á í viðskiptum yfir landamæri verður öll samstæðan skjölunarskyld. Það er lykilatriði í þessu máli.

Hins vegar eru þessar reglur skattasniðgöngureglur og er ætlað að nýtast við framkvæmd skattalaga en ekki Samkeppniseftirlits. Fram kom hjá Samkeppniseftirlitinu að það þyrfti alltaf að sækja þessi gögn sérstaklega ef fram færi könnun vegna hugsanlegra samkeppnislagabrota, þannig að eins og ég skil það væru menn í rauninni að búa sér til falskt öryggi með því að ætla að skjölunarskylda tryggi betra samkeppniseftirlit, vegna þess að reglurnar eru ætlaðar við framkvæmd skattalaga en ekki Samkeppniseftirlits. Þrátt fyrir að lagt sé til að skjölunarskyldan gildi ekki í viðskiptum milli tendra lögaðila innan lands gilda eftir sem áður um slík viðskipti almennar reglur 3. mgr. 57. gr. tekjuskattslaga, nr. 90/2003, um að verðlagning milli tengdra lögaðila eigi að vera í samræmi við armslengdarregluna. Á hverjum tíma geta skattayfirvöld farið fram á gögn því til staðfestingar, sem er að sjálfsögðu ekki hægt ef annað fyrirtækið er staðsett erlendis. Fyrirtækjum ber að upplýsa í skattframtali hverju sinni hverjum þau eru tengd.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á hvort ekki væri eðlilegt að efnahags- og viðskiptanefnd fylgdist með málinu og framvindu framkvæmdar á skjölunarskyldunni. Ég tel það sjálfsagt mál. Fyrir nefndinni kom fram að auðvitað væri verið að feta þarna nýjar slóðir. Það er í fyrsta skipti í ár sem unnið er að skjölunarskyldunni samkvæmt reglum OECD þannig að á vorþingi 2016 væri að mínu mati eðlilegt að fara yfir það hvernig til hefur tekist og er sjálfsagt að beina því til nefndarinnar að gera það.

Síðan er það fyrirliggjandi tillaga frá hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni, sem var komin hér fram við 2. umr. Hv. þingmaður dró hana síðan til baka. Hann sat síðan allmarga fundi þar sem málið var rætt í efnahags- og viðskiptanefnd, en vakti aldrei máls á þeirri tillögu. Ég leit þannig á að hún hefði verið dregin til baka og var því undrandi þegar ég sá hana fyrirliggjandi hér og tengda málinu. En ég get lýst því yfir fyrir mitt leyti að ég mun ekki samþykkja þessa tillögu eins og hún er fram komin hjá hv. þingmanni en mun ganga eftir því að það verði ljóst fyrir atkvæðagreiðsluna á morgun hver ætlan hv. þingmanns er.

Þá vona ég að ég sé búin að fara yfir helstu álitamálin sem fram komu í umræðunni. Mér láðist í fyrri ræðu minni að þakka nefndinni fyrir góða vinnu í þessu máli, en eins og fram hefur komið hefur það verið til umfjöllunar í nefndinni frá því í nóvember og fram í maí, ef ég man rétt, og mikil vinna lögð í það.