144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[22:00]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við þær fregnir tel ég ljóst að ræða mín verði allmiklu styttri en ég hugði. Ég ætla ekki að orðlengja þetta mikið, en vísa til þess sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon rakti um minnihlutaálit okkar tveggja. Ég færði í nefndinni fram þau rök fyrir áframhaldandi skjölunarskyldu innan samstæðu þegar um stærstu fyrirtækin er að ræða, þá einföldu staðreynd að það eru samkeppnislegir hagsmunir af því að upplýst sé um milliverðlagningu af slíkum toga og að slík viðskipti geti verið rekjanleg aftur í tímann með auðveldum hætti. Það er líka vert að hafa í huga að í mörgum fyrirtækjum eru viðskipti innan samstæðu leið til að hafa áhrif á afkomu þriðja aðila. Ég nefni sérstaklega viðskipti í sjávarútvegi milli veiða og vinnslu þar sem skiptaverð er undir og þar með afkoma sjómanna.

Þess vegna teldi ég efnisrök fyrir því að láta á það reyna að hafa skjölunarskylduna með þeim hætti sem við sammæltumst um í nefndinni eftir 2. umr. málsins og að hækka frekar veltuviðmið þannig að það hitti einungis fyrir stærstu fyrirtækin. Ég er enn þá þeirrar skoðunar að fyrir því séu efnisrök.

Að öðru leyti skýrir álitið sig sjálft og fyrst breytingartillaga hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar mun ekki koma til atkvæða hef ég lokið máli mínu.