144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

störf þingsins.

[12:31]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Lögmaðurinn Lee Buchheit segir í Morgunblaðinu í morgun að það kæmi sér ekki á óvart ef áætlun íslenskra stjórnvalda um afnám hafta yrði notuð í kennslubókum í framtíðinni. Í sömu grein segir að hann hafi lagt fram kylfu og gulrót á fundum með kröfuhöfum slitabúanna, aðferðafræði sem byggir á hörku eða umbun. Það var ekki lítið hlegið að frambjóðendum Framsóknarflokksins þegar þeir minntust á kylfur og gulrætur í síðustu kosningabaráttu. Pólitískir andstæðingar höfðu aldrei heyrt aðra eins firru, aldrei heyrt annað eins bull að hægt væri að nálgast kröfuhafa á þeim nótum. Annað hefur komið á daginn. Það væri kannski smámanndómur í því ef þetta sama fólk sem situr hér á þingi mundi biðjast afsökunar á þessum ummælum og öðrum í kosningabaráttunni. Framsóknarflokkurinn hefur nefnilega staðið við stóru orðin.

Í annan stað vil ég nefna viðtal við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra í Morgunblaðinu í morgun. Þar segir hann að bætt staða ríkissjóðs skapi svigrúm fyrir lægri skatta og einfaldara skattkerfi. Þar má nefna tryggingagjald, lægri álögur á einstaklinga og afnám tolla. Ýmislegt hefur áunnist á síðustu tveimur árum, en áfram verður haldið á sömu braut. Það ber að fagna orðum fjármálaráðherra. Núverandi ríkisstjórn lætur ekki staðar numið í að bæta hag almennings. Munurinn á núverandi ríkisstjórn og þeirri síðustu er æpandi.

Ég vil ljúka þessu með orðum Sigurðar G. Guðjónssonar lögmanns á samfélagsmiðlum í gær. Hann segir: „Vonandi skynja kjósendur að það þarf stjórnmálamenn með getu til að láta greina og taka ákvarðanir til að reka ríkið. Núverandi ríkisstjórn er ekki með neitt kröfuhafadekur eins og stjórn Jóhönnu og Steingríms var. Þeirrar stjórnar verður helst minnst fyrir það að gefa banka og siga vogunarsjóðum á einstaklinga, (Forseti hringir.) fjölskyldur og fyrirtæki.“ Það þarf ekki að segja neitt meira um þetta mál.