144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

störf þingsins.

[12:42]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ákvað, í tilefni þeirra orða sem hér féllu áðan og hv. þm. Karl Garðarsson hreykir sér af, að fara aðeins yfir þá stjórn sem hér ræður ríkjum í dag. Á vef Fréttatímans í dag er ágætisgrein þar sem kemur fram að samkvæmt rannsókn hagfræðinga við Cambridge-háskóla á áhrifum efnahagsstefnu breskra stjórnvalda á helstu þætti hagkerfisins örvuðu hvorki skattalækkanir ríkisstjórnar Margrétar Thatcher né tilslakanir hennar á regluverki fyrirtækja efnahagslífið. Það stangast nú svolítið á við trú þeirra sem hér fara með efnahagsmálin í dag og við þekkjum auðvitað þennan söng sérstaklega frá sjálfstæðismönnum. En því er ekki að neita að framsóknarmenn taka orðið töluvert undir hann.

Eins og segir í greininni voru skýrustu áhrifin af stefnu stjórnar Thatcher og þeirra sem á eftir komu og fylgdu meira og minna sömu efnahagsstefnu aukin misskipting tekna og eigna og aukið atvinnuleysi. Þrátt fyrir þessar sterku vísbendingar um að þetta sé tóm steypa og gagnist ekki nokkrum manni nema þeim sem eru mjög vel settir hefur hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson lýst því yfir að hann ætli að nýta það svigrúm sem skapast í hinu mikilvæga máli sem við fjöllum um á eftir, losun hafta, til að lækka áfram skatta, þrátt fyrir að það sé staðfest, m.a. í rannsókn þessara hagfræðinga við Cambridge, að það muni draga úr hagvexti, auka atvinnuleysi, auka misskiptingu tekna og eigna og draga úr lífskjörum almennings. Það mun hins vegar bæta tímabundið hag fáskipaðs hóps auðmanna. En það er líklega of seint að bjarga bæði Bjarna Benediktssyni og sjálfstæðismönnum sem hér sitja úr því að þeir virtust ekki vakna upp við það að hér varð hrun og dásvefninn varir hér enn.