144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

störf þingsins.

[12:54]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða hér undir þessum lið um störf þingsins nokkur jákvæð atriði sem hafa verið að gerast á þessu kjörtímabili og munu, ef allt gengur eftir, halda áfram að birtast okkur.

Þar vil ég náttúrlega fyrst nefna þá lækkun skatta sem þegar hefur átt sér stað, t.d. um 5 milljarða skattalækkun á miðjuskattþrepið. Það er einnig búið að lækka tryggingagjaldið, að vísu örlítið en þó hefur það lækkað í fjárlögum á síðustu tveimur árum og sú lækkun mun halda áfram. Við erum búin að afnema vörugjöld og lækka efra þrep virðisaukaskattsins, ég tala nú ekki um skuldaleiðréttinguna og þær launahækkanir sem búið er að semja um undanfarið og skattalækkanir og afnám tolla sem boðaðar eru í framhaldi af því. Allt þetta hefur aukið kaupmátt heimilanna töluvert og mun halda áfram að gera. Svo eru þessar jákvæðu fréttir sem við höfum fengið síðustu daga um afnám haftanna og hvernig þingið ætlar að vera samstiga í því. Það er allt til þess að skapa jákvæðni og ýta undir jákvæða þróun.

Alla þessa góðu hluti þurfum við að nýta sem best og tryggja hér á Alþingi og koma í veg fyrir að það endurtaki sig sem gerðist 2007 þegar allir voru að taka 100% lán eins og aðrir þingmenn hér hafa nefnt og haft áhyggjur af. Þess vegna held ég að við eigum að skapa sem flesta hvata til sparnaðar þannig að fólk fari að spara fjármuni, t.d. eins og við erum að gera með séreignarsparnaðinn, að gera skattfrjálst fyrir þá sem borga inn á skuldir eða eru að safna sér fyrir sinni fyrstu íbúð. Það er mikilvægt að halda áfram með slíkt og þá dregur úr þörf Seðlabankans á að hækka stýrivexti og annað slíkt og fjármagnskostnaður heimilanna mun minnka þannig að þetta er mjög mikilvægt.

Ég vil að lokum hvetja þá sem eiga eitthvað aflögu af ráðstöfunartekjum (Forseti hringir.) sínum til að styrkja góð málefni eins og hjá honum Sigvalda, lögreglumanninum í Umhyggjugöngunni á leiðinni norður í land, og láta gott af sér leiða ef þeir hafa tök á.