144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

störf þingsins.

[12:57]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er leitt að heyra að einhver hafi verið að hlæja að framsóknarmönnum í aðdraganda síðustu kosninga og þá kannski ekki síst vegna þess að menn hafi þar verið að tala um kylfur og gulrætur, ekki síst í ljósi þess að það gerðum við líka sem þá vorum í ríkisstjórn. Það kemur skýrt fram í fjölmiðlum frá þeim tíma þar sem við erum að fjalla um að beita þurfi aðferðafræði svipu og gulrótar. Það er kannski það sem var aðhlátursefni, þ.e. að menn næðu ekki saman um það hvort beita ætti svipum eða kylfum.

Virðulegi forseti. Það er nefnilega þannig í öllu þessu máli, og er gleðiefni núna, að við kölluðum eftir því á sínum tíma að um þetta næðist þverpólitísk samstaða, um öll þessi mál. Og það geta menn fundið ef þeir skoða fjölmiðla aftur í tímann.

Síðastliðin tvö ár hafa menn verið að reyna að búa til eitthvað annað, þ.e. menn hafa verið að reyna að búa til ósætti og ófrið um málefni losunar hafta, en núna virðumst við aftur vera að ná saman og menn eru komnir í hring í málinu. Það er það jákvæða í þessu. En núverandi ríkisstjórn, og Framsóknarflokkurinn, hefur tekið þá ákvörðun að fara þá samningaleið (Gripið fram í: Nei.) sem verið var að vinna að í aðdraganda (Gripið fram í.) síðustu kosninga, virðulegi forseti, það verður rætt betur á eftir og þeir sem eru órólegir hér í salnum geta þá rætt málið þar. Það er einfaldlega þannig.

Niðurstaða þessa máls er sú að við getum fyllilega náð saman í því, síðastliðin tvö ár hafa farið í það. Þar hefur tíma og fjármunum fyrirtækja í þessu landi verið sóað á meðan verið var að vinda ofan því sem Framsóknarflokkurinn sagði í aðdraganda síðustu kosninga og verið að reyna að búa til eitthvert fallegt PR-plan svo Framsóknarflokkurinn gæti komið nokk standandi á löppunum út úr því að fara (Forseti hringir.) núna þá sömu leið og fráfarandi ríkisstjórn vann að á síðasta kjörtímabili. (Gripið fram í: Nei, nei.)(Gripið fram í: Heyr, heyr.)