144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

orð formanns atvinnuveganefndar.

[13:02]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Forseti. Ég vil vekja athygli forseta á því að það á að heita svo að hér hafi verið á dagskrá liðurinn Störf þingsins. Tiltekinn hópur þingmanna kemst að í þeirri umræðu, aðrir ekki. Mér finnst varla við hæfi, herra forseti, að mönnum líðist að nota ræðutíma sinn við slíkar aðstæður og nafngreina aðra þingmenn og rægja þá út í eitt. Mér finnst í fyrsta lagi að forseti mætti gera athugasemdir við slíkan málflutning (Gripið fram í: Heyr, heyr.) og í öðru lagi er það ekki boðlegt að þingmenn þurfi að sæta því og sitja undir því, dauðir eins og það er kallað í umræðu, að geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Auðvitað kippi ég mér ekki mikið við skítadreifarana frá hv. þm. Jóni Gunnarssyni og ég mun hafa tækifæri síðar til að jafna þá reikninga ef svo ber undir, en mér er meira umhugað um að svona lagað sé ekki látið líðast í störfum þingsins, að svona lágkúra, svona ódrengskapur, að vega að mönnum sem ekki geta svarað og hafa ekki ræðurétt í sömu umræðu sé látið viðgangast. En auðvitað er skömmin hv. þingmanns.