144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

orð formanns atvinnuveganefndar.

[13:10]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil gera alvarlega athugasemd við það að hv. þm. Jón Gunnarsson víki hér orðum að hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og beri honum á brýn ómálefnaleg sjónarmið og kjördæmapot vegna ákvarðana á Bakka og bjóði honum ekki upp á að svara fyrir sig. Ég vil skjóta skildi fyrir hv. þm. Steingrím J. Sigfússon og rifja það upp að það voru iðnaðarráðherrar Samfylkingarinnar sem stóðu að því að tryggja uppbyggingu á Bakka og það var á endanum fjármálaráðherra Samfylkingarinnar sem kom því máli í gegnum þingið, bara svo því sé til haga haldið. Við erum stolt af uppbyggingunni á Bakka og þótt sjálfstæðismenn sýni að þeir séu tilbúnir að fara að gera það að einhverri verslunarvöru í hrossakaupum hér í þingsal, þá erum við ekki tilbúin til þess. Við erum stolt af uppbyggingunni á Bakka, teljum þar vel hafa verið staðið að verki.

Að síðustu. Ég er ekki hrifinn af hugmyndinni sem hv. þm. Jón Gunnarsson viðraði hér um að fórna líka Hvammsvirkjun í hrossakaupaæði sínu. Ég held að það sé betra að hér komi til atkvæða hin upphaflega (Forseti hringir.) tillaga ráðherrans sjálfs.