144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

orð formanns atvinnuveganefndar.

[13:13]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Fundarstjóri. Það er fróðlegt framlag þingmanns friðar og sátta, hv. Jóns Gunnarssonar, að draga tillöguna til baka fyrir sína hönd og væntanlega ráðherrans. Því ber að fagna, það auðveldar þinglok sem forsetinn hyggst væntanlega beita sér fyrir fyrir verslunarmannahelgi. Þó þyrfti að skýra tillöguna aðeins betur því að hér hafa komið fram nokkrar mismunandi túlkanir á henni. Sú sem sjálfsögðust er og augljósust er sú að hann sé ekki aðeins að draga til baka breytingartillögur sínar heldur líka tillögur ráðherrans um Hvammsvirkjun sem hv. þingmaður og félagar hans í meiri hluta atvinnuveganefndar hafa tafið í heilan vetur. Sem umhverfissinni fagna ég því. Þó að ég lúti ferli rammaáætlunar um Hvammsvirkjun er ég ekki hrifinn af þeim kosti. Ég held að með þessu hafi eiginlega fallið gagnrýni þingmannsins á það að ekki séu neinir orkukostir (Forseti hringir.) fyrir hendi vegna andstöðunnar við breytingartillögu þeirra félaga þegar hann sjálfur ætlar nú að tefja Hvammsvirkjun um heilt sumar í viðbót.