144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

orð formanns atvinnuveganefndar.

[13:27]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum væntanlega öll sammála um að á dagskránni á eftir sé eitt veigamesta frumvarp þessa kjörtímabils. Það hefur verið látið í veðri vaka að samkomulag yrði á þinginu um ýmis mál áður en þessi umræða byrjaði af því að allir vildu hafa hana friðsamlega og ekki með þeim leiðindabrag sem oft er í þingsal. En þá akkúrat gerist það, virðulegi forseti, að þingmenn henda hingað inn, ef ég má bara orða það svo, ég biðst afsökunar á orðbragðinu, skítabombu. Þá er væntanlega ætlast til þess — eins og við höfum ekki gert mikinn hávaða af því að þetta mál er að fara á dagskrá núna þrátt fyrir að við teljum að ekki hafi verið farið eftir því sem var búið að láta í veðri vaka, svo ég taki ekki sterkar til orða — að við látum þetta ganga yfir okkur líka, virðulegur þingmaður Jón Gunnarsson.