144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[14:05]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir þakkir til allra þeirra sérfræðinga sem hafa unnið hörðum höndum að gerð þessara frumvarpa. Ég fagna þeim enn og aftur. Það er einkum tvennt sem gerir það að verkum að ég, og við í Bjartri framtíð, fögnum þessum frumvörpum, annars vegar það viðhorf sem kemur fram til þessara peninga sem nú munu mögulega streyma inn á einhvers konar reikninga eða innlánsreikninga í Seðlabankanum. Þetta eru ekki venjulegir peningar, þetta er ekki fjársjóður sem er hægt að eyða í hvað sem er eins og mér finnst stundum sumir hafa talað. Þetta eru þannig peningar að seðlabankastjóri hefur til dæmis notað hugtakið mengun til að lýsa þeim.

Hins vegar höfum við auglýst mjög eftir því hvort ekki séu örugglega einhverjar viðræður, eitthvert samtal, við kröfuhafana. Ég hef gert það ítrekað hér í fyrirspurnatíma og orðið svolítið undrandi á því að svörin hafa iðulega verið þau að ekki hafi staðið til að semja við eða tala við kröfuhafa á nokkurn hátt. Mér finnst ánægjulegt að heyra að (Forseti hringir.) viðræður við kröfuhafa eru hluti af þessu plani og hafa verið. Hversu mikla þýðingu hafa þær viðræður haft, hvenær byrjuðu þær og hefði mátt hefja þær fyrr? Töfðu mögulega alls konar hugmyndir um gjaldþrotaleið og þessa háttar þær viðræður?