144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[14:08]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég taldi að samtalið, við skulum bara kallað það svo, þyrfti alltaf að fara fram vegna þess að að öðrum kosti hefði verið mjög erfitt að réttlæta að mörgu leyti mjög róttækan skatt eins og stöðugleikaskatt, það hefði alltaf þurft að réttlæta hann sem ýtrasta úrræði. Þá hefði þurft að sýna fram á að samtal hefði farið fram áður þannig að ég fagna mjög þessari tvískiptu leið. Ég vona að það náist farsælir nauðasamningar sem ríma við okkar skilyrði um stöðugleika. Það er sú lausn sem við höfum kallað eftir.

En ég vil bara fá örstutt svar við mjög stórri spurningu. Nú tala ég um lífið eftir höft, þetta mál allt saman birtist mér á þann veg að krónan sé það vondur gjaldmiðill að ekki sé hægt að flytja fjármuni á milli landa og notast við hana til þess. Þess vegna þurfa kröfuhafar að gefa eftir eigur sínar í íslenskum krónum. Það er meiri háttar galli á gjaldmiðlinum, finnst mér, og ég velti fyrir mér: (Forseti hringir.) Miðað við þennan lærdóm og miðað við þessa augljósu staðreynd, sér hæstv. fjármálaráðherra krónuna sem framtíðargjaldmiðil? Verður hún einhvern tímann án hafta?