144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[14:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég sé krónuna fyrir mér sem framtíðargjaldmiðil og já, ég sé hana líka fyrir mér án hafta, sérstaklega þessara hafta sem við erum að ræða um hér og höfum fengið að kynnast á undanförnum árum. Þurfum við að beita einhvers konar þjóðhagsvarúðarúrræðum til að halda uppi ákveðnum vörnum gegn árásum á gjaldmiðilinn? Já, við munum eflaust þurfa að gera það líka. En það eru ekki höft, hvorki gjaldeyrishöft, eins og við þekktum þau í gamla daga, né heldur fjármagnshöft, eins og við þekkjum þau núna. Það er einfaldlega þjóðhagsvarúðartæki sem mörg ríki beita til þess að verjast árásum og óeðlilegum sveiflum sem fullkomlega frjáls fjármagnsviðskipti geta haft fyrir gjaldmiðlana, stundum með hörmulegum afleiðingum, jafnvel fyrir stór ríki eins og Bretland og breska pundið. Þá munu þeir þurfa að gæta að því að það sé ekki hægt að fella lífskjör almennings þar án varúðartækja.

Ég er ekki sammála því að þetta mál sýni okkur að við getum ekki haft gjaldmiðilinn. Það var hins vegar algjörlega óraunhæft hjá alþjóðlegum fjárfestum að lána það magn fjármuna sem gert var til íslenska fjármálakerfisins, (Forseti hringir.) það sýndi sig, enda gátu þeir ekki, þegar kuldaveturinn skall á í fjármálaheiminum, risið undir þeim erfiðleikum. Það voru margir sem gerðu mikil mistök, meðal annars þeir sem lánuðu 13 þús. milljarða til íslenska bankakerfisins.