144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[14:16]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að vera ærlegur og segja að ég var afskaplega ánægður með þessa ræðu hæstv. fjármálaráðherra og sömuleiðis þá miklu hreinskilni sem hann hefur sýnt í þessu samtali við okkur. Ég þakka honum og starfsmönnum fjármálaráðuneytisins fyrir sína góðu vinnu síðan 2011 í þessu máli og sömuleiðis Seðlabankanum fyrir djúphygli og úthald.

Hæstv. ráðherra sagði að menn hefðu átt samtal við handvalinn hóp kröfuhafa og skýrt fyrir honum á hvaða áfangastað Íslendingar vildu fara. Orðrétt sagði hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Þar hefur verið hlustað eftir því hvernig menn séu tilbúnir að koma sér á þennan áfangastað …“

Ég velti því fyrir mér hvort menn hafi hlustað of grannt. Mér finnst svolítið einkennilegt hversu fljótir hópar kröfuhafa hinna ýmsu banka stökkva á það tilboð sem kemur fram í hinum svokölluðu stöðugleikaskilyrðum. Ég velti fyrir mér hvort Íslendingar kunni að hafa gengið of skammt þegar þeir létu reyna á sársaukamörk kröfuhafanna.