144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[14:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það mun eflaust hver sjá það með sínum augum hversu ströng stöðugleikaskilyrðin eru og hvort þau fullnægi því markmiði sem að er stefnt. Hér eru lögð fram frumvörp og hér er lögð fram áætlun sem byggir fyrst og fremst á því að við erum að eyða greiðslujafnaðarvanda sem stafar af slitabúunum og í raun er það algert grundvallaratriði. Síðan erum við með aðra áætlun sem eyðir greiðslujafnaðarvanda vegna aflandskrónuvandans.

Þeir sem spyrja sig þessarar spurningar verða að kafa ofan í það hvort stöðugleikaskilyrðin ná því markmiði eða ekki að eyða greiðslujafnaðarvanda vegna slitabúanna. Það er okkar niðurstaða að svo sé. Það er mat okkar ráðgjafa að svo sé. Það er mat Seðlabankans og fjármálaráðuneytisins að svo sé. Svo geta menn verið annarrar skoðunar, að þetta mál snúist ekkert um það að eyða greiðslujafnaðarvandanum heldur að endurheimta fjármuni frá föllnum fjármálafyrirtækjum í einhverjum öðrum (Forseti hringir.) tilgangi, en það er ekki það sem þessi frumvörp byggja á.