144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[14:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að benda hv. þingmanni á að gera greinarmun á kröfum í krónum og kröfum í gjaldeyri á innlenda aðila. Þeir kröfustabbar samanlagt mynda efri fjárhæðina og það er tekist á við báða flokkana í þessari áætlun og í stöðugleikaskilyrðunum.

Ég tek eftir því að margir eru að velta fyrir sér hvort hér sé nánari útfærsla á einhverri fyrri áætlun sem var til staðar eða hvort hér sé um að ræða einhverja nýja áætlun. Þá ætla ég að segja mína sýn á það. Að því marki sem einhver áætlun var til um það hvernig ætti að taka á þessum vanda þá snerist hún að langmestu leyti um það að fara í einhvers konar viðskipti við slitabúin um að íslenska ríkið mundi mögulega eignast einhverja banka og aðrar kröfur og aðra slíka hluti. Það varð tiltölulega snemma okkar niðurstaða að fara ekki þá leið. Við förum hér frekar leið skatts og stöðugleikaskilyrða sem byggir þá á því að íslenska ríkið fær ekki í fangið þessi stóru fjármálafyrirtæki og við byggjum áætlunina alfarið á lausn á greiðslujafnaðarvandanum. (Forseti hringir.) Ég kannast ekki við að það hafi verið neinar útfærðar hugmyndir um (Forseti hringir.) skattlagningu í stjórnkerfinu frá því að ný ríkisstjórn tók við.