144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[14:54]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lýsti því ítarlega áðan í máli mínu að ég hef fullan skilning á því að það hafi tekið tíma að skilgreina viðmiðin sem slitabúin þyrftu að fara eftir. Auðvitað höfum við heyrt kvein frá þeim, ekki er við öðru að búast. Það er bara fullkomlega eðlilegt að menn verji hagsmuni sína. En það sem ég gerði athugasemdir við hér áðan var að forustumenn ríkisstjórnarflokkanna, og sérstaklega hæstv. forsætisráðherra, skyldu hafa látið sig hafa það að útmála þá sem spurðu um framgang undirbúnings þessa verkefnis, sem þjóðníðinga og landráðamenn, talsmenn erlendra kröfuhafa, eins og ítarlega var sagt hér í þingsölum. Það er það sem mér finnst mjög til vansa þegar horft til baka og engin innstæða er fyrir í ljósi þeirrar niðurstöðu sem hér er komin.

Hæstv. fjármálaráðherra lýsti hér ágætlega hvað gerðist. Það urðu auðvitað samningar. Auðvitað eru þetta samningar þegar himinn og haf, mörg hundruð milljarðar voru á milli viðhorfa og manna, þá dragast þeir auðvitað saman vegna þess að ríkisstjórnin er búin að skapa sér skynsamlega og trúverðuga samningsafstöðu og byggja hana á efnislegum gögnum. Það gera menn í samningum. Ég hrósa mönnum bara fyrir þessa samninga. Menn eiga ekkert að fara á harðahlaupum undan því að hafa farið samningaleið. Þetta er bara skilgreining á samningum sem kallast „proximity-talks“ og ég hvet ríkisstjórnina og ríkisstjórnarmeirihlutann til að fletta skilgreiningu á því atriði upp á Wikipediu.

Varðandi síðan ummæli hæstv. fjármálaráðherra er ég ánægður að heyra að hann er með augun á tímasetningum skattalækkana. Ég tek undir það að það er auðvitað full ástæða til að lækka tryggingagjald. Það er mjög mikilvægt að lækka tryggingagjald. Það er skelfilegur skattur fyrir þekkingarfyrirtæki og minni fyrirtæki. En ég ítreka enn það sem ég sagði áðan að sporin hræða og sá skelfilegi kokteill sem Sjálfstæðisflokkurinn bjó til til að tryggja sér áframhaldandi ríkisstjórnarsetu 2003 og leiddi kosningabaráttuna 2003 út á, hann var uppskriftin að hruninu.