144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[14:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég hef nú bara gaman af því að ræða um skattapólitík samhliða þeim málum sem hér eru undir og ekkert síður skattaáherslur fyrri ára. Það var samt þannig fyrir kosningarnar 2003 að flokkarnir kepptust við, ekki síst Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn, að útfæra skattahugmyndir sem falla mundu kjósendum sem best í geð. Ég man eftir því þegar ég var nýkominn á þing að hingað upp í ræðustól steig þáverandi varaformaður Samfylkingarinnar og sakaði Sjálfstæðisflokkinn um svik við kjósendur vegna þess að skattar lækkuðu ekki nógu mikið og ekki nógu hratt. (ÖS: Formaðurinn gerði það ekki.) Samfylkingin á auðvitað kannast við að hafa boðað miklar og meiri skattalækkanir en Sjálfstæðisflokkurinn fyrir kosningarnar 2003, vegna þess að það var eitt helsta baráttumál þeirra.

En aftur að nútímanum. Áfram á að leita leiða til að létta álögum af fólkinu í landinu eftir því sem svigrúm skapast til í ríkisfjármálum samhliða því að við styrkjum innviðina (Forseti hringir.) og við lykilstofnanir. Það er eindregið mín skoðun. En það þarf að tímasetja slíkt í samræmi við stöðuna í efnahagsmálum.