144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:04]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Forsenda samninga og forsenda þess að hægt væri að gera tillögur var lagabreytingin 12. mars 2012. Eigum við að ræða hverjir studdu hana? Þá voru þessar eignir felldar undir höft. Þá fyrst byrjaði Seðlabankinn ítarlegar rannsóknir á greiðslujafnaðargreiningu. Þær voru ekki lengra komnar en raun ber vitni þegar við fórum úr ríkisstjórn, en þó það langt komnar að komin var heildstæð sýn um það að hægt væri að ná sirka þeim árangri sem nú liggur fyrir, 75% afskrift af innlendum eignum kröfuhafa. Því var lýst opinberlega af Seðlabankanum, opinberlega af þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Katrínu Júlíusdóttur. Og það er auðvitað áburður um landráð að gera mönnum upp varðstöðu um hagsmuni kröfuhafa þegar fyrir því eru engin rök. Ég lýsti einfaldri lagalegri stöðu á þessum fundi. Hún stendur enn og allir (Forseti hringir.) samningar sem gerðir hafa verið. Það er vissulega búið að lýsa hér ítarlega samningum við kröfuhafa um hvernig menn færðu afstöðu nær hver öðrum. Þeir hafa verið gerðir af virðingu fyrir stjórnarskrárvernduðum eignarréttindum kröfuhafa enda ekki annað hægt í réttarríki.