144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:05]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir ræðu sína og einnig vil ég nýta þetta tækifæri til að þakka ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar fyrir gríðarlega vinnu að áætlun um afnám hafta og öllum þeim sem komu að vinnunni.

Hv. þm. Árna Pál Árnason talar um að aðgerðaáætlun um afnám hafta sé verk Samfylkingarinnar eða fyrri ríkisstjórnar, ef ég misskil hann ekki, eða að þetta sé alla vega mjög líkt. Mig langar því að spyrja hann út í það sem maður les í fréttum í dag, m.a. á visir.is um upplýsingar sem birtast í skýrslu fjármálaráðherra frá því í mars, en þar kemur fram að áætlun fyrri ríkisstjórnar hafi eingöngu tekið á aflandskrónum, sem sagt þessum 300 milljörðum, ef ég skil þetta rétt. Ef þessar upplýsingar eru réttar, af hverju var það þá ekki inni í áætlun fyrri ríkisstjórnar að taka á slitabúum, þessum 900 milljörðum? Ég vitna hér í fréttaflutning dagsins. Er hv. þingmaður ekki sammála mér um að heildarlausnin liggi í því að taka á þessum slitabúum?