144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:09]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég hef þá skilið hv. þingmann rétt, að það hafi ekki verið í áætlun fyrri ríkisstjórnar að taka á innlendum eignum slitabúanna, þ.e. þessum 900 milljörðum kr.

Hv. þingmaður talar um að allir flokkar hafi talað um að taka á þessum málum. En í kjölfar skuldaleiðréttingarinnar til dæmis og fleiri þátta hafa ýmsir fylgjendur stjórnarandstöðunnar mikið verið að spila ákveðið vídeó þar sem núverandi hæstv. forsætisráðherra er ítrekað spurður út í þetta svigrúm, af hverju hann sé eini aðilinn sem tali um það og þori að tala um að það eigi að nýta það og að ganga eigi á slitabúin. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig það samræmist að fréttamenn tali svona við ákveðinn frambjóðanda ef aðrir hafa verið með sama málflutning?