144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að víkja að ráðstöfun þess stöðugleikaframlags sem hér er undir eða skattgreiðslna og lýsa þeirri skoðun minni að þetta sé nokkuð skýrt í frumvarpinu. Þessu verður ráðstafað til lækkunar á skuldum. Samráð verður haft við Seðlabankann, hlustað eftir sjónarmiðum þar, og það er einmitt í þeim tilgangi að lágmarka áhrifin til þenslu í hagkerfinu. Við slíka ráðstöfun munu vaxtagjöld ríkissjóðs geta lækkað umtalsvert og það er í því samhengi og horft inn í framtíðina sem ég segi: Batnandi hagur ríkissjóðs í framtíðinni á að sjálfsögðu að koma landsmönnum öllum til góða. Í því samhengi eigum við ekki að láta staðar numið við þær skattalækkanir sem við höfum þegar kynnt til sögunnar og hrundið í framkvæmd, heldur hlýtur að koma til skoðunar í náinni framtíð að leita leiða til að létta enn frekar gjöldum og sköttum af fólki í landinu. Það finnst mér sjálfsagt.

Ég fylgi því eftir með því að segja að þetta verður að tímasetja vel. Seðlabankinn bendir á að aðhalds sé þörf. Ég vísa þá í ríkisfjármálaáætlun, sem liggur fyrir þinginu, sem sýnir að áfram stendur til að gæta mikils aðhalds, að stuðla að vaxandi afgangi í ríkisfjármálunum. Ég hef frekar skynjað það en hitt að mörgum þætti sem við værum að reka fullaðhaldssama ríkisfjármálastefnu með því að frumgjöld eru fallandi hlutfall af landsframleiðslu á næstu árum gangi ríkisfjármálaáætlunin eftir. Við þær aðstæður mundi ég segja að verið væri að sýna fram á gríðarlega mikið aðhald og þess vegna hafna ég þeim sjónarmiðum að þörf sé á sérstökum utanaðkomandi kælandi aðgerðum vegna ríkisfjármálaáætlunarinnar. Það er þvert á (Forseti hringir.) mína sýn á stöðuna. Við erum með ríkisfjármálaáætlun sem er aðhaldssöm. Við fylgjum henni í dag og við munum fylgja henni áfram á þeim forsendum.