144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:49]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ósammála því, nema þá í þessum þrönga skilningi, að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ætli að skera niður samneysluna og minnka velferðarkerfið á komandi árum um 1% af vergri landsframleiðslu. Ef menn vilja monta sig af því sem aðhaldi þá er það bara ein hlið á því máli. Meiri samneysla og öflugra velferðarkerfi, meiri fjárfesting í innviðum sem væru fjármögnuð á móti með tekjum fela í sér nákvæmlega sama aðhald og jafnvel meira. Ég gagnrýni ríkisfjármálaáætlunina vegna þess að það er eiginlega enginn afgangur ætlaður á ríkissjóði næstu fjögur árin. Afkoman er ekki nema rétt yfir núllinu, þannig að hæstv. fjármálaráðherra verður að beina þessu að einhverjum öðrum en þeim sem hér talar að minnsta kosti.

Það er áhugavert ef eignasafn Seðlabanka Íslands, ESÍ, verður líka gert upp mögulega með viðbótarhagnaði í þessum skilningi mælt. Það verður blómlegt í Seðlabankanum ef hann fær nú alla þessa stöðugleikapeninga og gerir ESÍ upp með miklum gróða og allt það. Gott og vel.

Já, menn tala um að öll þessi verðmæti skuli ganga til niðurgreiðslu skulda, en svigrúmið sem myndist með lægri vaxtakostnaði ríkisins á komandi árum — það svigrúm ræðst nú að einhverju leyti af því hvað Seðlabankinn hækkar mikið vexti á næstunni, sem eru ekki góðar fréttir fyrir ríkissjóð frekar en aðra sem skulda peninga — það vill hæstv. fjármálaráðherra nota í skattalækkanir og nefnir núna tryggingagjaldið. En þá spyr ég á móti: Af hverju var ekki byrjað á því að lækka tryggingagjaldið? Af hverju var ekki staðið við fyrirheitin um það þegar atvinnuleysið minnkaði (Gripið fram í.) og útgjöld vegna þess minnkuðu. Ja, þú getur ekki kallað það lækkun, hæstv. fjármálaráðherra, 0,1% og 0,1% (Fjmrh.: 34.) og 0,1% mjatla út slíku á þrem, fjórum árum er auðvitað ekki neitt, neitt. Atvinnuleysisfallið eitt og sér gæfi tilefni til 1,5% lækkunar á tryggingagjaldinu eða þar um bil.

En það er líka hægt að láta alla landsmenn njóta þess í gegnum öflugt heilbrigðiskerfi, í gegnum metnaðarfullt menntakerfi, í gegnum fjárfestingar í innviðum, í betri vegum o.s.frv., í betri og fleiri hjúkrunarrýmum. Þannig að það er nú ekki þannig að eina leiðin (Forseti hringir.) til þess að landsmenn njóti ávinnings af batnandi þjóðarhag sé sú að lækka skatta og allra síst (Forseti hringir.) á stórgróðafyrirtæki og auðmenn.