144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:53]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það gerist oft í hita leiksins að mönnum verður á í messunni og þeir missa kannski út úr sér orð sem þeir eftir á að hyggja hefðu ekki viljað láta falla. Ég hygg að í þessu tilviki mundi sérhver sómakær þingmaður komast að þeirri niðurstöðu. Þau orð sem hv. þm. Karl Garðarsson lét falla voru á þá lund, um formann Samfylkingarinnar, að hann hefði verið, með leyfi forseta, „harður á því alla kosningabaráttuna að verja hag kröfuhafa“.

Herra forseti. Hvað er þetta? Þetta eru brigsl um að stjórnmálamaður sé meðvitað að vinna gegn þjóðarhag. Hvað felur það í sér? Það felur í sér ásökun um landráð. Þannig tala menn nú ekki í þessum sal, að minnsta kosti ekki þeir sem kunna eitthvert lágmark af mannasiðum og vilja vera drengir góðir. Ég hef þá trú að hv. þm. Karl Garðarsson vilji vera það og tek þess vegna undir þessa (Forseti hringir.) ósk hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur og þar með yrði málið dautt.