144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[16:01]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég var svo ógæfusamur að vera hér í salnum þegar þessi ummæli féllu. Ég tek undir það með síðasta hv. ræðumanni að oft tala menn stórt í þessum stól og stærra en þeir ætluðu. Enginn er saklaus af því, að minnsta kosti ekki sá sem hér stendur.

Allir eiga afsökun orða sinna nema andskotinn, sagði mér Elías Mar. Það gat hv. þm. Karl Garðarsson gert vegna þess að ummælin féllu í fyrra andsvari þannig að strax í síðara andsvari hefði hann getað leiðrétt sig. Það kaus hann að gera ekki. Hann kann að vera pirraður af einhverjum ástæðum vegna þeirra frumvarpa sem hér eru komin fram, vegna þeirrar umræðu sem nú fer fram, en hann getur ekki leyft sér að láta það koma niður á samskiptum, ekki bara þingmanna heldur samskiptum þings og þjóðar sem sérstakur reglurammi er um í þingsköpum og hefðum Alþingis.