144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[16:02]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að hlé verði gert á þessum fundi og forsætisnefnd setjist yfir þetta mál. Við getum ekki haldið áfram að ræða málið með þetta hangandi yfir okkur. Ummælin voru svo ósmekkleg og þeim var beinlínis ætlað að draga upp mynd af hv. þm. Árna Páli Árnasyni inni í þessari umræðu og í þessu samhengi. Ég verð að segja að ósmekklegri ummæli hef ég vart heyrt. Þingmaðurinn Karl Garðarsson má skammast sín fyrir þau. Ég óska því eftir því, og bið um viðbrögð forseta við þeirri ósk minni, að gert verði hlé á þessum fundi og forsætisnefnd fari yfir málið og taki ákvörðun um hvort ekki beri að víta þingmanninn fyrir þetta. Megi þetta síðan verða okkur öllum lexía um það að núna þegar gengið hefur verið yfir strikið, við erum svo sem mörg búin að dansa nálægt því, er komið mál að linni. Við þurfum að taka okkur saman í andlitinu og fara að virða hvert annað betur hér. Ég tek alveg minn þátt í því til mín en þetta mál þarf forsætisnefnd að fara yfir. Þetta fór algjörlega yfir öll mörk.