144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[16:03]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég sé ekki betur en að hv. þm. Karl Garðarsson ætli ekki að taka til sín þær athugasemdir sem hér hafa verið hafðar uppi með réttu. Ég bið því forseta um að gera hlé á umræðunni og kalla forsætisnefnd saman. Hv. þingmaður er að brigsla formanni stjórnmálaflokks um refsivert athæfi. Það er eitthvað sem við getum ekki liðið hér í þingsal. Ég er döpur yfir þessu vegna þess að hér erum við að tala um mál þar sem við höfum öll verið að freista þess að nálgast umræðuna á þann veg að það væri hafið yfir pólitískar átakalínur. Við settum höftin á saman og við eigum að losa þau saman. Við eigum að hafa þroska til þess að vera ekki að mála hvert annað þeim sterku litum sem hv. þingmaður freistaðist til að gera en ég verð því miður að segja í þessu efni að eftir höfðinu dansa limirnir.