144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[16:10]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að verja löngum tíma í það að rekja innihald þeirra frumvarpa sem eru til umræðu, enda hefur hæstv. fjármálaráðherra nú þegar gert það mjög vel og ítarlega, en ég ætla að nota þann tíma sem ég hef til að ræða aðeins um víðara samhengi þeirra mála sem hér hafa verið lögð fram og eru nú til umræðu.

Í fyrsta lagi tel ég mikilvægt að draga það fram að með þeim málum sem við ræðum hér í dag er verið að ljúka sjö ára erfiðu ferli. Það er verið að klára uppgjör þeirra atburða sem urðu í október 2008 og það er verið að gera það á mjög skynsamlegan hátt en reyndar mjög afgerandi hátt líka. Við eigum því að leyfa okkur að nota þetta sem tilefni til að fara að líta fram á við. Við í þessum sal og víðar í samfélaginu erum búin að horfa dálítið lengi aftur á bak og velta fyrir okkur mistökum fortíðar, að sumra mati, og að sumra mati einhvers konar göllum á samfélagi okkar sem hafi leitt til þessara atburða á árinu 2008. En nú getum við farið að leyfa okkur að leggja áherslu á tækifæri framtíðar. Það þýðir ekki að við ætlum alveg að hætta að skoða fortíðina og læra af reynslunni, alls ekki, virðulegur forseti, en með þessum málum sem við erum að ræða hér höfum við allar forsendur til að horfa bjartsýn fram á veginn. Þess vegna taldi ég rétt í upphafi máls míns að vekja athygli á því að þetta er gleðidagur og við eigum að leyfa okkur að vera glöð í þinginu og sýna það jafnvel í framgöngu okkar hér í þingsal.

Virðulegur forseti. Með þeim málum sem hér eru til umræðu er, eins og ég gat um, verið að stíga síðasta stóra og mikilvæga skrefið í að klára uppgjör þeirra mála sem tengjast fjármálahruninu. Það er gert núna í fyrsta lagi vegna þess að aðstæður hafa verið skapaðar til þess að stíga þetta skref, og ég mun rekja það aðeins nánar hér á eftir, en líka vegna þess að undirbúningsvinna fjölda fólks, sérfræðinga, fólks sem hefur lagt á sig gríðarlega mikla vinnu í langan tíma, hefur skilað því að við getum nú stigið þessi skref full öryggis um árangur þeirra.

Fyrst aðeins að aðdragandanum og fyrri stóru skrefunum á þessari leið. Það er óhætt að segja að fjögur skref sem stigin hafa verið við lausn erfiðleikanna sem fylgdu falli íslensku bankanna hafi í raun verið einstök, gríðarlega stór en um leið einstök, ekki bara hér á landi, í sögu þessa lands, heldur þótt víðar væri leitað.

Í fyrsta lagi eru neyðarlögin. Þau voru nauðsynleg viðbrögð við einstöku ástandi og hafa staðist fullkomlega. Án þeirra hefði ekki verið grunnur til þess að halda áfram því uppbyggingarstarfi sem við horfum nú fram á.

Í öðru lagi stóðust menn áhlaup þegar gerðar voru tilraunir til að fá Íslendinga, almenning í þessu landi, til að taka á sig gríðarlega miklar skuldir, kröfur á fallið einkafyrirtæki. Það var erfiður slagur á tímum en menn stóðu það af sér. Með því vorum við í aðstöðu til að halda áfram uppbyggingarstarfi.

Loks var ráðist í aðgerðir til að koma til móts við heimili landsins, einnig einstakar aðgerðir, aðgerðir sem ekki höfðu verið framkvæmdar hér áður og raunar ekki nokkurs staðar annars staðar. Með leiðréttingu á skuldum heimilanna var búið svo um hnútana að grunneining samfélagsins og grunneining efnahagslífsins um leið væri í stakk búin til að halda áfram uppbyggingarstarfi, líta til framtíðar.

Loks með þeim frumvörpum sem við ræðum hér í dag er fjórða risastóra skrefið stigið og það síðasta af nauðsynlegum aðgerðum til að rétta við íslenskt efnahagslíf og renna undir það traustum stoðum. Þess vegna eigum við að leyfa okkur að gleðjast, þess vegna eigum við að líta á það sem ákveðin vatnaskil, daginn þegar við getum farið að líta meira til framtíðar en fortíðar.

Það væri ekki hægt að stíga þetta skref sem við ræðum hér í dag nema fyrri skref sem ég nefndi hefðu verið stigin og önnur undirbúningsvinna hefði skilað árangri. Með því á ég við það sem ég rakti áðan, undirbúning þessara aðgerða sem slíkra, en einnig það að koma efnahagslífinu á þann stað að hægt væri að ráðast í losun hafta. Það hefur gengið betur en jafnvel ég hefði þorað að vona. Það birtist meðal annars í því að atvinnuleysi á Íslandi er nú orðið líklega hið minnsta í Evrópu. Það birtist líka í því að hagvöxtur hefur skilað því að landsframleiðsla Íslands er orðin meiri en hún var fyrir fjármálahrunið. Ísland var fyrst þeirra landa sem lentu í fjármálakrísunni til að ná þeim áfanga og vinna sig þar með út úr hruninu. Þetta birtist einnig í því að hér hefur orðið til efnahagslegur stöðugleiki lengur en við höfum séð áratugum saman með því að verðbólga hefur haldist lág mánuð eftir mánuð og reyndar ár eftir ár. Hverju skilar það? Það hefur skilað mestu kaupmáttaraukningu síðari ára og reyndar mestu kaupmáttaraukningu í Evrópu þannig að staða heimilanna hefur batnað, ekki aðeins vegna þess að skuldir þeirra hafa lækkað heldur líka vegna þess að raunverulegar tekjur hafa aukist.

Það er við þessar aðstæður sem þetta mikla undirbúningsstarf vegna losunar fjármagnshafta klárast. Þetta eru, eins og komið hefur fram í opinberri umræðu undanfarna daga, kjöraðstæður til að ráðast í þessar aðgerðir. En þær urðu ekki til af sjálfum sér, þær urðu til vegna þess að tíminn á meðan verið var að koma efnahagslífinu í samt horf og bæta það var vel nýttur til undirbúnings. Þá leituðu stjórnvöld til allra þeirra sem best þekktu til, m.a. til manna sem höfðu sýnt frumkvæði í því að vara við hættum sem blasað höfðu við á árunum eftir efnahagshrunið, ekki hvað síst þeirri hættu sem fólst í því að vanmeta áhrifin af hinum svokölluðu slitabúum hinna föllnu banka. Það gleymdist nefnilega að taka tillit til áhrifa þeirra framan af og það eru engin smávægileg áhrif. Það er raunar bróðurparturinn af því sem við er að fást hér og það að menn skuli taka á því gerir okkur kleift að leysa það sem eftir er af vandanum, þ.e. með því að taka á þeim vanda sem fólst í hinum margræddu erlendu kröfuhöfum, vogunarsjóðum fyrst og fremst sem höfðu keypt hér kröfur á fallna íslenska banka og þar með í rauninni á íslenskt efnahagslíf, er okkur kleift að leysa allt sem því tengist.

Hverjar verða afleiðingarnar af þessu? Hvaða áhrif mun þetta hafa fyrir almenning á Íslandi? Þetta mun hafa meiri áhrif á stöðu íslensks almennings fjárhagslega, efnahagslega, en nokkurt annað þeirra stóru mála sem við höfum verið að ræða undanfarin missiri og undanfarin ár, raunar alveg frá því að fjármálahrunið reið yfir í október 2008. Með þessu er hægt að verja efnahagslegan stöðugleika hér. Það er hægt að verja gjaldmiðilinn. Hvað þýðir það? Það þýðir að hægt er að verja stöðu heimilanna. Það er hægt að koma í veg fyrir að lánin þeirra hækki eins og þau hefðu gert ef ekki hefði verið gripið til þessara aðgerða. Það er hægt að halda áfram að auka kaupmátt íslensks almennings vegna þess að þau verðmæti sem við munum skapa á Íslandi á næstu árum geta orðið eftir hér í landinu. Þau geta nýst til þess að auka kaupmáttinn, bæta stöðu fólks, auka velferð en líka rétta stöðu ríkisins og gera því kleift að sinna hlutverki sínu betur, gera því kleift að endurreisa innviðina, bæta úr því ástandi sem varð til meðan skorið var niður, jafnvel í grundvallarþjónustu eins og velferðarþjónustu og heilbrigðisþjónustu.

Ástæðan er sú að við munum ekki þurfa, eins og ella hefði orðið og allt of mörg lönd hafa lent í í gegnum tíðina, að keppast við að framleiða verðmæti til útflutnings til að standa straum af skuldum einkafyrirtækja. Það er sú staða sem við hefðum lent í ef ekki hefði verið brugðist við með þeim hætti sem við ræðum hér. Þá hefði íslenskt samfélag þurft að spara við sig á allan mögulegan hátt. Innfluttar vörur hefðu verið mjög dýrar, gjaldmiðillinn hefði líklega aldrei náð sér á strik og við hefðum þurft að framleiða hér eins ódýrar vörur og við mögulega hefðum getað fyrir heimamarkaðinn en flytja út allt það verðmætasta, selja það til að standa straum af greiðslum fallinna fjármálafyrirtækja til kröfuhafa sinna.

Með þessum aðgerðum nú erum við að leysa þessa stöðu. Við erum að renna traustum stoðum undir efnahagslífið og þar með undir hvert einasta heimili í þessu landi og gera fólki kleift að halda áfram að greiða niður lánin sín, halda áfram að auka kaupmátt sinn og gera ríkinu kleift að halda áfram að rækja skyldu sína betur en það hefur verið í aðstöðu til á undanförnum árum.

Þetta er þess vegna, eins og ég hef nefnt nokkrum sinnum í þessari ræðu, mikið gleðiefni sem við eigum að leyfa okkur öll að nota sem tækifæri til að gleðjast og líta til framtíðar.

Það sem er þó sérstaklega ánægjulegt við það hvernig að þessu er staðið, í samræmi við tillögur sérfræðinga og þeirra sem að þessu hafa komið, er að það er sama hvort skatturinn sem við ræðum hér fellur á eða hvort slitabúin klára það sem þau hefðu átt að klára fyrir löngu, að gera nauðasamninga sem uppfylla þær kröfur sem eru nauðsynlegar til að hægt verði að aflétta höftum. Í báðum tilvikum kemur þetta í sama stað niður, greiðslujöfnuður landsins er varinn, heimilin eru varin, ríkið er varið. Hvort sem menn greiða hér samanlagt 850 milljarða í skatt, auk þeirra kannski 50 sem hafa komið frá þeim nú þegar og hugsanlega 100 milljarða á öðrum aðgerðum, samtals 1.000 milljarðar, eða fara aðrar leiðir, nýta sér leiðir til að lækka skattbyrðina en leggja sitt af mörkum með öðrum hætti til efnahagslífsins eða klára nauðasamningana og greiða þar af leiðandi stöðugleikaframlag í stað stöðugleikaskatts, í báðum tilvikum verður niðurstaðan sú sama fyrir Ísland. Við verjum þjóðarbúið, við verjum íslenskt efnahagslíf og íslensk heimili.

Ef stöðugleikaskilyrðin verða uppfyllt er þar með komin endanleg niðurstaða í málið með því að stöðugleikaframlagið verður innt af hendi en um leið verðum við búin undir hvaða þróun sem kann að verða önnur, til að mynda vegna verðmætis bankanna því að ríkið mun fá hlutdeild, 50% eða 75%, í verðmætaaukningu þessara búa. Ef bankarnir hækka í verði og verða seldir fær ríkið bróðurpartinn af þeirri verðmætaaukningu til sín. Einnig verða neyðarlán ríkisins gerð upp og allmörg önnur atriði sem öll eru til þess fallin að tryggja stöðu landsins, hvernig sem hlutirnir þróast varðandi verðmæti bankanna, varðandi verðmæti krafna því að ríkið tekur yfir kröfur sem nú eru í eigu þessara aðila til viðbótar við stöðugleikaframlagið, hvernig sem verðmæti þeirra þróast er í öllum tilvikum staða Íslands varin. Þess vegna erum við hér að ræða aðgerð sem miðar að því, hvaða leið sem verður farin, að verja heimilin í landinu og lágmarka óvissu.

Síðasta stóra skrefið í nauðsynlegum aðgerðum til að rétta við íslenskt efnahagslíf mun skila þeim árangri að við Íslendingar verðum í betri efnahagslegri stöðu en þjóðin hefur nokkurn tímann áður upplifað. Það þýðir að við getum gert enn betur á þeim sviðum sem ég lýsti áðan.

Tekjujöfnuður hefur reyndar aldrei verið meiri en nú, en við getum enn bætt stöðu þeirra sem lakari hafa kjörin og aðrir geta áfram aukið kaupmátt sinn og það getur á allan hátt haldið áfram að verða betra og betra að búa á Íslandi. Við erum þess vegna hér að ræða mál sem ekki aðeins lýkur erfiðu sjö ára ferli heldur býr líka vel í haginn til allrar framtíðar svoleiðis að Íslendingar geti vel við unað, geti glaðir búið sér framtíð á Íslandi.