144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[16:28]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla þá bara að reyna að sýna því skilning að menn vilja einhvern veginn reyna að sýnast harðir á þessum tímapunkti og að ekkert samningasamtal hafi farið fram. Hins vegar skil ég þetta þannig að það sé mjög mikilvægur þáttur í þessari farsælu lausn að menn hafi opnað á samtal við kröfuhafana til að reyna að finna út úr því hvernig stöðugleikaskilyrðin gætu litið út og hvernig kröfuhafarnir gætu mætt þeim. Mér finnst bara allt í lagi að hrósa sér líka af þeirri lipurð sem hefur þá verið sýnd og það er sú lipurð sem við í Bjartri framtíð vorum að auglýsa eftir.

Mig langar aðeins örstutt að spyrja um framtíðarsýnina, það er svipuð spurning og ég spurði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Mér finnst þetta dæmi sýna að krónan, litla krónan, höndlar ekki stóra fjármagnsflutninga. Hæstv. forsætisráðherra segir, ég held að hann hafi sagt það svona: Við munum ekki þurfa að auka útflutningsverðmæti til að standa undir skuldum einkafyrirtækja. Á hann þá við framtíðina? Sér hann það fyrir sér að íslenskt hagkerfi verði þannig að ekki verði hægt að (Forseti hringir.) standa undir erlendum skuldum einkafyrirtækja? Í rauninni er ég að segja: Er krónan ekki of lítil og sýnir þetta dæmi okkur ekki að krónan er of lítil til að höndla jafnvel hina minnstu fjármagnsflutninga?