144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[16:35]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er almennt mjög glöð og þarf ekki mikla hvatningu til þess. Ég ætla að byrja á því að gleðja hæstv. forsætisráðherra með því að segja honum að ég fagna þeim málum sem hér eru fram komin og ég vonast til þess að um þau geti náðst breið sátt. Mér hefði samt þótt skemmtilegra þegar ég lít á söguskoðun hæstv. forsætisráðherra að heyra aðeins minnst á til að mynda þá áætlun sem var samþykkt 2011. Mér sýnist sú áætlun sem nú hefur verið byggt á, byggja á þeirri áætlun, en hæstv. forsætisráðherra skautaði nú alveg fram hjá því í söguskoðuninni. En hann vildi ræða framtíðina. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um framtíðina og sérstaklega það sem hæstv. fjármálaráðherra boðar nú, sem eru skattalækkanir í kjölfar þessara aðgerða. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort það sé trú hans og flokks hans, Framsóknarflokksins, að það sé skynsamlegasta aðgerðin núna þegar við eigum einmitt að vera að róa að því öllum árum að tryggja hér stöðugleika þegar við eigum að taka mark á þeim alþjóðastofnunum, rannsóknum sem sýna allar að skattalækkanir og (Forseti hringir.) brauðmolahagfræðin eru úrelt vísindi. Til þess að tryggja jöfnuð og velsæld þarf skattkerfið (Forseti hringir.) að vera rekið með skynsamlegum hætti. Er hæstv. ráðherra sammála (Forseti hringir.) þessari forgangsröðun hæstv. fjármálaráðherra?