144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[16:39]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst af því að ég var spurður beint um áætlun Seðlabankans frá 2011, þá byggja aðgerðirnar nú ekki á þeirri áætlun. Þvert á móti, nú er verið að taka sérstaklega á því sem vantaði í þá áætlun.

Varðandi skattkerfið er rétt að taka fram vegna athugasemda hv. þingmanns að breytingar þessarar ríkisstjórnar á skattkerfinu og raunar gjöldum líka hafa einmitt verið til þess fallnar að auka jöfnuð en ekki hitt, eins og við sjáum á þeim staðreyndum að tekjujöfnuður hefur aldrei verið jafn mikill og nú á Íslandi. Þar getum við gert enn þá betur. Reyndar hefur hlutfall fátæktar ekki verið jafn lágt heldur, en þar getum við einnig gert betur.