144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[16:45]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Þessi keppni í gleði sem hér fer fram er mjög ánægjuleg. Ég gleðst yfir henni. Hún birtist mér líka sem ákveðin, skiljanleg þörf margra þingmanna, eftir margra ára erfiða viðureign við fjármagnshöftin, fyrir að reyna að halda því til haga að það hafa margir komið að þessu máli. Það eiga margir heiðurinn af því að hafa náð góðri niðurstöðu, og það er gott. Ég er ekki með neitt sérstaklega góða vígstöðu í því kapphlaupi að eigna mér heiðurinn af þessu sem er verið að leggja hér fram í dag. Við í Bjartri framtíð höfum ekki átt aðkomu að ríkisstjórn og höfum verið áhorfendur að þessu ferli, reynt að hafa eitthvað málefnalegt og uppbyggilegt til málanna að leggja í þessu. Ég hef verið í samráðsnefnd um afnám hafta og einhverjir fundir hafa verið haldnir þar. Þeir hafa verið góðir en að mínu viti of fáir þannig að ef það er eitthvað sem ég ætti nú að gagnrýna í þessu ferli er það nú það að það hefði alveg mátt hafa fleiri fundi í þeim góða hópi. Hann var ágætlega samansettur, meðal annars af fólki úr fyrri ríkisstjórn sem hafði haft mjög ríka aðkomu að þessu máli og hefði bara haft gott til málanna að leggja eins og það fólk hefur haft hér í ræðupúlti í dag. Þetta er auðvitað sameiginlegt verkefni, það hefur alltaf legið fyrir. Höftin voru sett á út af augljósri þörf. Það stóðu allir að því og ég upplifði það bara þannig að síðan þá hefur það verið sameiginlegt verkefni stjórnmálanna, þverpólitískt, að reyna að koma okkur út úr þessu haftaumhverfi.

Mér hefur stundum mislíkað hvernig menn hafa matreitt þetta verkefni og hvernig menn hafa lagt þetta á borðið, hvernig menn hafa talað um þetta. Við í Bjartri framtíð erum ánægð með þessi frumvörp og mér finnst ég þurfa að útskýra þá ánægju og rökstyðja hana hér í máli mínu. Við höfum einkum gagnrýnt tvennt, við höfum sagt: Það svigrúm sem verður við losun hafta — sem enginn hefur deilt um, það hefur enginn haft það að stefnu sinni í stjórnmálaflokki að gjaldeyrisvaraforði þjóðarinnar yrði notaður til að greiða út erlendar krónueignir á Íslandi, það hefur ekki verið málflutningur eins eða neins. Það hefur legið fyrir um talsvert skeið, skulum við segja, það lá ekki fyrir beint eftir hrun og ekki á þeim tveimur, þremur árum sem liðu eftir hrun. Þessi mynd fór að teikna sig upp smám saman, að þessar krónueignir gætu ekki farið úr landi í skiptum fyrir gjaldeyri, það lá alltaf fyrir. Við höfum í hugtakanotkun stjórnmálanna kallað þá staðreynd svigrúmið, þetta er loftið sem þarf að fara úr hagkerfinu. Við höfum gagnrýnt það, og stöndum við það, hvernig sumir stjórnmálaflokkar, sumir stjórnmálamenn, hafa talað um þetta svigrúm. Þeir hafa talað um það eins og þarna séu einhverjir peningar. Það var kosningaloforð fyrir síðustu kosningar að menn ætluðu nánast að taka allt það svigrúm sem nú blasir við okkur, tölur voru nefndar upp á 300 til 600 milljarða, og nota það allt til að greiða niður höfuðstól skulda heimilanna. Menn voru búnir að reikna það út að það kostaði þessa upphæð að minnka skuldir heimilanna, höfuðstól heimilanna, um 20%.

Við lögðumst gegn og höfum lagst gegn slíkum áformum, að þessir peningar séu notaðir á þann hátt. Við höfum tekið undir þau orð að þessir peningar séu ekki peningar í þeim skilningi að hægt sé að nota þá til útgjalda fyrir ríkissjóð eða dreifa yfir hagkerfið. Þessir peningar urðu til vegna hagstjórnarmistaka sem voru gerð hér í aðdraganda hrunsins þar sem of mikið peningamagn fór í umferð út af ákvörðunum til dæmis um að minnka bindiskyldu, út af ástarbréfaviðskiptum Seðlabankans við innlendar fjármálastofnanir. Þetta jók peningamagnið í umferð og það er það peningamagn sem við erum núna að fá aftur inn í Seðlabankann. Ef við ætluðum að nota þetta peningamagn með óábyrgum hætti þá værum við að endurtaka mistökin sem voru gerð á árunum upp úr 2005 þegar þessir peningar voru settir í umferð og Ísland fór á hliðina. Það er einstaklega mikilvægt, vegna þess að þessi tegund af hagstjórnarmistökum á sér stað hvað eftir annað og ekki bara á Íslandi heldur í öðrum löndum í veraldarsögunni, að leggja á það ríka áherslu að farið sé á ábyrgan, efnahagslegan hátt með þetta fé. Þetta er ekki fé í þeim skilningi að þetta sé einhver svona sjálfbær tekjuinnkoma fyrir ríkissjóð sem hann getur notað til uppbyggingar verkefna. Það væri að auka peningamagn í umferð með ömurlegum verðbólguáhrifum að setja þetta allt út í hagkerfið. Við höfum gert athugasemdir við það að menn hafi talað eins og slíkt væri sjálfsagt mál. Það er ekkert mál í pólitík að veifa sjóðum, það er alltaf hægt að segja við kjósendur: Við ætlum að ná í 500 milljarða. Stjórnmálamenn hafa gert það í gegnum tíðina, einfaldasta leiðin til að ná í hvaða summu af peningum sem þeim mögulega getur dottið í hug er í sjálfstæðu hagkerfi einfaldlega að prenta þá, bara ræsa prentvélarnar. Þetta er náttúrlega bara bréf með mynd á og kostar í sjálfu sér ekkert mikið að búa til þetta bréf með mynd á. Það er alltaf hægt að gera þetta. Ég legg ríka áherslu á að þetta hefur fólk gert og það sem við Íslendingar gerðum hér í hagstjórn á árunum fyrir hrun var ígildi þessa. Við bara prentuðum þessa peninga. Þeir fóru út í hagkerfið og ollu verðbólgu. Það er ákaflega mikilvægt að við endurtökum ekki, vegna þess að freistingarnar til þess að gera þetta, sérstaklega á kosningaári sem er 2016–2017 þegar þessi peningar fara mögulega að streyma inn í sjóði í Seðlabankanum, verða miklar. Ég heyri að það glittir í þær núna, það er farið að tala um svigrúm til skattalækkana á þessum tímapunkti þegar menn eru að tala um þetta mikla fé. Það er þegar búið að verja hluta af þessu fé til svokallaðrar skuldaleiðréttingar eða skuldaniðurfellingar. Það er þegar búið að setja þetta út í hagkerfið og á að setja hluta af þessu út í hagkerfið.

Við skulum líka átta okkur á því að það verður vandasamt að nota þetta fé til að greiða niður opinberar skuldir. Hinum megin við opinberar skuldir liggur sparnaður einhvers. Það er einhver sem á ríkisskuldabréf og samkvæmt mínum kokkabókum, ef við ætluðum að greiða upp öll ríkisskuldabréf í einu vetfangi, innlendar skuldir ríkisins, þyrfti það ekki endilega að hafa góð hagstjórnarleg áhrif. Að sama skapi, ef við ætlum að reyna að nota þennan pening til að greiða niður erlendar skuldir ríkissjóðs, hefur það auðvitað, ef óskynsamlega er á málum haldið, svipuð áhrif og við erum að reyna að koma í veg fyrir nú. Fjármagnið mundi streyma úr landi og mundi valda hruni á gengi krónunnar. Engu að síður held ég, og augljóst er að greiða upp seðlabankabréfið svokallaða, að skynsamlegasta leiðin til að nota þessa peninga sé að greiða niður skuldir. Ég fagna því að samhljómur er um það hér í þingsal. Það er mjög mikilvægt, og það mun þurfa sterk pólitísk bein til þess, að viðhalda þeim samhljómi. Við eigum líka að átta okkur á því að það verkefni er ekkert einfalt. Á þessum tímapunkti þyrstir mig í djúpa og marghliða hagfræðilega greiningu á því hvernig þessum peningum verður skynsamlega ráðstafað. Ég geri ráð fyrir að sjónarmiðin verði allt frá því að skynsamlegast sé að setja þá í pappírstætara og síðan hafi kannski einhverjir þau sjónarmið að það sé allt í lagi að verja þessum peningum til einhverra uppbyggingarverkefna. Ég efast um að það sé í lagi en ég vil heyra allar hagfræðilegar röksemdir á þessum tímapunkti og tel það mjög mikilvægt. Í öllu falli, eins og stendur í frumvarpinu um stöðugleikaskattinn og mætti standa í hinu frumvarpinu líka, er gert ráð fyrir mjög miklu aðhaldi í ráðstöfun á þessu fé. Á þetta höfum við lagt áherslu. Við höfum spurt spurninga, t.d. hæstv. forsætisráðherra hér í þingsal. Ég spurði hæstv. forsætisráðherra hér í mars einhvern tímann hvort það væri ekki örugglega skilningur hans að þessi peningur væri ekki til frjálsra afnota fyrir ríkissjóð og það var svolítið eftir bókinni að gefið var í skyn að maður bæri hag kröfuhafa óeðlilega mikið fyrir brjósti. Það andrúmsloft hefur blessunarlega breyst.

Hitt sem við lögðum áherslu á og hefur blessunarlega verið orðið við, að minnsta kosti hefur það komið á daginn að öðrum hefur fundist það skynsamlegt líka, er að við höfum alltaf talið að fram þyrfti að fara samtal — ég veit ekki hvað maður á að kalla þetta, samtal eða samningaviðræður eða einhvers konar orðaskipti — milli stjórnvalda og fulltrúa kröfuhafa. Þetta er ekki vegna þess að við berum hag kröfuhafanna eitthvað sérstaklega fyrir brjósti, við höfum bara alltaf gert okkur grein fyrir því að skattlagning á búin til að leysa þennan vanda, sem er erlend krónueign þeirra hér á landi, yrði alltaf mjög róttæk, ef hún er eins róttæk og hún þyrfti að vera gæti það orðið vandasamt verkefni að verja slíka skattlagningu fyrir dómstólum. Stöðugleikaskatturinn eins og hann birtist hér í frumvarpinu er mjög róttækur. Í tilviki sumra búa — ef við segjum að krónueignir búanna séu vandamálið, það er augljóslega það sem er vandamálið, krónueignir búanna, þá höfum við bú eins og Kaupþing sem er með tiltölulega litlar krónueignir í raun og veru og skatturinn eins og hann birtist í stöðugleikaskattsfrumvarpinu er í rauninni um það bil, mér reiknast svo til, 130% af innlendum eignum búsins. Það er stórbrotinn skattur í því tilviki og í tilviki Landsbankans er þetta líka mjög róttækur skattur vegna þess að Landsbankinn gamli er að mörgu leyti búinn að semja, upp að mjög stóru marki, um skipti á eignum. Það birtist í landsbankabréfinu sem búið er að lengja í þannig að hann væri kannski líka í svolítið skrýtinni stöðu ef hann ætti að greiða stöðugleikaskattinn, mundi kannski þurfa að greiða dálítið meira en sem nemur innlendum eigum. Engu að síður er stöðugleikaskatturinn vel útfærður, þetta er það sem þarf að gera. En það sem okkur fannst alltaf vanta inn í þessa mynd — við gátum sagt: Jú, það er skynsamlegt að fara þessa skattlagningarleið, hún er einföld og það er gætt jafnræðissjónarmiða í þessu en hún verður alltaf að birtast sem ýtrasta úrræði. Við verðum að geta sagt hér sem stjórnvald: Þetta er ýtrasta úrræði, önnur hóflegri úrræði hafa verið reynd. Þetta taldi ég alltaf mikilvægt og væri stórt púsluspil sem þyrfti að vera í hendi í þessu öllu saman. Þess vegna vakti það mér ugg að heyra í sífellu það viðhorf hæstv. forsætisráðherra sem birtist til dæmis í svari hans við fyrirspurn minni 22. apríl, þar sem ég spurði hvort einhverjar viðræður hefðu farið fram við kröfuhafa eins og greint hafði verið frá í fréttum. Ég vonaði að svarið væri já út af þessum áhyggjum mínum. Ég hefði talið það styrkja stöðu Íslendinga ef menn hefðu bara sagt: Já, á kröfuhafa hefur verið hlustað. Við höfum verið í samtali við þá.

Það hefði með öðrum orðum verið vont ef við stæðum hér í dag bara með frumvarpið um stöðugleikaskatt og engin tíðindi um samtal við kröfuhafa; ekkert frumvarp þar sem skilgreind væri þessi nauðsynlega umgjörð nauðasamninganna. Það hefði verið vont og á tímabili taldi ég að menn væru að stefna í þá átt, að koma hér bara með stöðugleikaskattinn. Þá hefði verið erfitt að sitja í efnahags- og viðskiptanefnd og fá fulltrúa kröfuhafanna þar á fund og svara spurningum eins og þessum: Af hverju hefur ekki verið talað við okkur? Af hverju hafa vægari úrræði ekki verið reynd? Af hverju hefur okkur ekki verið gefinn kostur á að semja um þessar krónueignir? Það hefði verið erfitt að mæta slíkum sjónarmiðum. Ég er því guðs lifandi feginn að þessi leið hefur verið farin, að bjóða upp á þetta val, að bjóða upp á nauðasamningana, skilgreina hvaða skilyrði nauðasamningar þurfa að uppfylla, eftir því hefur verið beðið, skilgreina umgjörð slíkra nauðasamninga, að þeir verði ekki samþykktir nema með vottorði frá Seðlabankanum. Þetta er skynsamlegt og þetta er í anda þess sem við höfum kallað eftir og ég skil ekki af hverju menn eru á harðahlaupum undan þessu afreki, forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar, og hafna því að þetta samtal eða viðræður við kröfuhafana hafi farið fram. Mér finnst það algjört lykilatriði í að efla stöðu Íslands.

Þetta er ástæðan fyrir því að ég gleðst yfir þessu.

Menn takast svolítið á um söguna hér í þingsal og fram fer ákveðið skilgreiningastríð á því eða söguskoðunarstríð, í mikilli gleði náttúrlega, um það hvað hafi farið fram. Einu í þessari umræðu allri um höftin og haftamálin hefur mér fundist mikilvægt að halda til haga. Mér finnst ekki að við eigum að fara með þann lærdóm inn í framtíðina, út úr þessu öllu saman, að við höfum orðið einhvers konar fórnarlömb vondra útlendinga. Mér finnst það ekki vera sú ábyrga niðurstaða sem við eigum að draga af þessu eða ályktun og að við séum í dag einhvern veginn að klekkja á þessum útlendingum. Ég held að það sé mjög mikilvægt, og mér fannst við vera á þeim stað þegar skýrsla rannsóknarnefndarinnar kom hér út, að við áttum okkur á eigin ábyrgð í þessu öllu saman. Hér voru gerð, eins og ég fór yfir áðan, dálítið umfangsmikil hagstjórnarmistök af hálfu Íslendinga í aðdraganda hrunsins. Það fór of mikið peningamagn í umferð. Mér finnst það lykilatriði að átta sig á því að þessi tegund af hagstjórnarmistökum, sem því miður áttu sér þarna stað, hafa verið svolítið rauður þráður í hagstjórnarsögu Íslendinga. Það er ágætlega rakið hér í þessu góða riti, Drög að uppgjöri, eftir Ásgeir Jónsson og Hersi Sigurgeirsson, sem nýverið kom út, hvernig aðdragandi að fjármagnshöftunum hefur verið, hvernig alls konar dæmi eru sambærileg í öðrum löndum og hvernig ákvarðanir Íslendinga hafa orðið til að auka vandann og hvernig sambærilegar ákvarðanir hafa verið teknar áður. Til dæmis vil ég nefna eitt: Þarna er rakið hvernig því var komið fyrir hér, á viðreisnarárunum og upp úr þeim, að 20–30% af innlánum bankanna áttu að fara í sjóð í Seðlabankanum. Það var svona bindiskylda, átti að fara í sjóð í Seðlabankanum og átti bara að vera þar. Þetta var til þess að minnka peningamagn í umferð, til þess að halda aftur af þenslu. Þetta hefur alltaf verið vandamál á Íslandi, að reyna að halda aftur af þenslu. En hvað gerðist? Það myndaðist pólitískur þrýstingur, síldin fór og svona og það myndaðist væntanlega rík pólitísk samstaða — ég veit ekki hvort það var samstaða, en alla vega myndaðist þörf til þess að styðja við grunnatvinnuvegina. Það myndaðist mikill þrýstingur á að lána þessa peninga til sjávarútvegsins sem var í miklum vanda. Það er ekki að spyrja að því, þessir peningar fóru náttúrlega úr sjóðum Seðlabankans til sjávarútvegsfyrirtækjanna út af þessum pólitíska þrýstingi. Þarna vantaði lánsfé og eins og er rakið í skýrslunni þá er þetta ein ástæðan fyrir hinni miklu óðaverðbólgu sem einkenndi samfélagið á áttunda og níunda áratugnum. Slík peningadreifing út í samfélagið er birtingarmynd einhverra algengustu, held ég, hagstjórnarmistaka sem Íslendingar hafa gert og hafa ítrekað verið stunduð í veraldarsögunni. Það er rosalega mikilvægt að við áttum okkur á því að þrátt fyrir fögur fyrirheit á þessari stundu hefur Íslendingum haldist illa á sjóðum. Okkur helst illa á sjóðum. Ágætt dæmi er landsímaféð sem átti að fara í að byggja landspítala eða hátæknisjúkrahús eins og það hét. Sá peningur hvarf bara eitthvert og enginn veit hvert.

Menn fóru fram með kosningaloforð fyrir síðustu kosningar sem snerist líka um þetta, að seilast í þennan sjóð og dreifa honum út, ekki til sjávarútvegsfyrirtækja að þessu sinni heldur inn á höfuðstól verðtryggðra skulda heimilanna og hafa þegar gert það að hluta til. Bara þessi augljósu dæmi sýna að freistingin til að seilast í þessa peninga verður mjög rík og það er mjög mikilvægt að leggja áherslu á djúpa hagfræðilega greiningu á því á þessari stundu hvað væri í lagi að gera við þetta.

Mér finnst líka mjög mikilvægur sá tónn sem hefur komið fram í umræðunni, og á það höfum við í Bjartri framtíð líka lagt áherslu í fyrirspurnum og öðru í okkar tali, að þetta verkefni að losa höftin — og raunar er rík ástæða til að leggja áherslu á að við erum ekki, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og fleiri hafa bent á, að afnema höftin með þessum frumvörpum. Þessi frumvörp eru ekki um afnám hafta, þau eru um að ýta úr vegi ákveðinni grundvallarhindrun í losun hafta.

Mér finnst mjög mikilvægt að nálgast þetta þannig að við séum bara að reyna að losa um þennan þrýsting, við séum bara að viðhalda stöðugleika. Það liggur alveg fyrir að það getur orðið mikill munur á því hvað kemur inn í ríkissjóð eða á reikning Seðlabankans eftir því hvort borgað verður stöðugleikaframlag eða stöðugleikaskattur. Það er mjög mikilvægt að missa ekki sjónar af því að upphæðin sem kemur inn verður mun lægri í gegnum stöðugleikaframlagið og ef hún verður lægri þá er það bara vegna þess að umfang vandans er minna. Við erum ekki á þessari stundu að reyna að ná í meira fé í gegnum þetta, við erum bara að reyna að leysa þennan vanda, sem er þessi umframkrónueign sem vill leita út, að hún fari ekki út úr hagkerfinu. Þá vil ég hrósa Sigurði Hannessyni, sem er einn þeirra sérfræðinga sem vann að úrlausn þessara mála fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Hann segir þetta einmitt í viðtali við Fréttablaðið í dag, að við eigum ekki að hafa áhyggjur af því að stöðugleikaframlagið, ef nauðasamningsleiðin verður farin, skili minna fé í þessa sjóði. Það sé út af fyrir sig ánægjulegt, þá endurspegli það bara að umfang vandans hafi verið minna. Þetta róar mig, þetta sýnir mér að menn eru að nálgast þetta verkefni af ábyrgð.

Að lokum vil ég hafa hér örfá orð um framtíðina. Eins og ég segi þá er ekki verið að afnema höft. Eins og kom fram í máli lykilráðgjafa í þessu ferli, Lees Buchheits, mun það afnám, ef það er yfirleitt raunhæft markmið, taka mörg ár og vera margra ára ferli. Eins og fram hefur komið í andsvörum hjá mér í dag lít ég svo á að það ferli sem við erum að fara í gegnum núna, með því að taka þessar krónur inn á reikning í Seðlabankanum, ætti að segja okkur þá sögu að íslenska krónan er einfaldlega of lítill gjaldmiðill í of litlu hagkerfi til að geta höndlað það að útlendingar fari með eigur sínar úr landi í krónum, því miður. Íslenska krónan höndlar ekki fjármagnsflutninga, að minnsta kosti ekki af þessari stærðargráðu, og ég held að það sem hefur gerst á undanförnum árum sé að erlendu kröfuhafarnir hafa bara áttað sig á því. Það þurfti þennan tíma fyrir þá til að átta sig á því að virði þessara eigna fór vaxandi hér á landi, sem voru kannski í þeirra huga góð tíðindi, en það blasti við og það blasti alltaf betur og betur við að krónan höndlar ekki að það sé hægt að flytja til fjármagn.

Það er gott að allir átti sig á því á þessum tímapunkti og að það leiði til þessarar niðurstöðu en tíðindin fyrir okkur hin sem búum hérna eru auðvitað svolítið áhyggjuefni. Krónan höndlar sem sagt ekki fjármagnsflutninga. Hún gerir það ekki. Það hefur verið sagt í umræðunni um þetta að jafnvel hinir minnstu fjármagnsflutningar til útlanda í annan gjaldeyri hafi áhrif á gengi krónunnar. Þetta vitum við auðvitað. Við búum í þannig hagkerfi að jafnvel hinir minnstu fjármagnsflutningar hafa mjög mikil áhrif á gengi krónunnar. Spurningarnar sem vakna eru augljósar: Hvernig verður lífið eftir þessa aðgerð? Hvað blasir við? Höndlar krónan uppgang? Höndlar krónan ríka þörf Íslendinga sjálfra, ekki bara lífeyrissjóða heldur fyrirtækja og einstaklinga, til að fjárfesta auknum tekjum í eigum erlendis? Höndlar hún það? Eru þetta ekki spurningarnar sem blasa við? Og er ekki líka bara raunverulegt að mistökin frá 2005 endurtaki sig? Seðlabankinn er að fara að hækka vexti, búinn að hækka vexti og boðar hærri vexti; og við með þessa krónu og okkur virðist dreyma um það hér þverpólitískt að hún sé á einhvern hátt haftalaus. Höndlar hún þá innstreymi á fjármagni í vaxtamunaviðskiptum? Af hverju skyldi hún gera það? Hvaða afleiðingar hefur það? Erum við ekki alltaf að horfa á krónu í umtalsverðum höftum ef við ætlum að hafa krónu á annað borð? Ég tala nú ekki um ef við mundum síðan í ofanálag endurtaka mistökin frá 2005 og upp úr og setja allan þennan pening í umferð á einhvern mjög óæskilegan hátt.

En ég lít svo á að þessi frumvörp marki tímamót. Við erum á krossgötum þegar við sjáum þessi frumvörp, það getur spilast mjög vel úr þessu öllu saman. Vonandi verður þetta allt saman, þegar við ryðjum þessari stóru hindrun úr vegi, okkur hvatning til að taka á fleiri augljósum vandamálum eins og til dæmis þessu stefnuleysi sem ríkir um framtíðarfyrirkomulag gjaldmiðilsmála. Vonandi komumst við lengra í því að búa hér til frjálst og opið markaðssamfélag, ég held að það eigi að vera markmiðið og þá þurfum við að taka á fleiri stórum álitamálum en þessu.