144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[17:27]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Sjónarmiðið um „stríðsskaðabætur“ á alveg rétt á sér. En ef gjaldþrotaleiðin hefði verið farin þá sýna söguleg fordæmi að hún hefði getað leitt háska yfir Ísland. Þar fyrir utan féll hæstaréttardómur hér í október/nóvember sem bókstaflega sýndi fram á að sú leið var ekki fær.

En þegar ég segi að það sé hollt fyrir okkur að skoða söguna og fortíðina í þessu máli þá er það meðal annars til þess að draga lærdóm af henni. Hvað kostaði þetta okkur? Hvað kostaði það að afgreiðsla málsins dróst um tvö ár eða heilt ár eins og Benedikt Jóhannesson, ritstjóri Vísbendingar, sagði og höfundar þeirrar skýrslu sem hv. þingmaður nefndi hér áðan, Ásgeir Jónsson og Hersir Sigurgeirsson? Hvað kostar árstöf? Viðskiptaráð sló á það hér í hittiðfyrra. Það kostar þjóðfélagið 80 milljarða á ári. Þannig að töfin sem togið við hæstv. forsætisráðherra um gjaldþrotaleiðina kostaði var um (Forseti hringir.) 80–120 milljarðar. Þetta er bara hollt að vita.