144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[17:28]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er rétt, enda voru margir að rukka eftir aðgerðum og inna ríkisstjórnina eftir einhverju plani. Það hafa margir gert hér í þingsal í fyrirspurnartíma og umræðum alveg frá upphafi þessa kjörtímabils. Það var orðið mjög undarlegt hve langan tíma það tók. Það er eitthvað til að velta fyrir sér. Hefði verið hægt að ná þessum samningum fyrr? Menn hefðu getað haft á lofti haglabyssu til að veifa, menn hefðu getað haft gjaldþrotaleiðina sem slíka byssu. Hefðu menn þá getað farið í þessar þreifingar fyrr? Nú kalla ég þetta þreifingar, ég vona að það sé í lagi, eða þetta samtal sem mér skilst að sátt sé um að megi kalla því nafni, hefði verið hægt að fara í það fyrr?

Það vekur athygli mína að þessi úttekt, þessi drög að uppgjöri, er kostuð af slitastjórn Glitnis. (Forseti hringir.) Höfundar komast að þeirri niðurstöðu þar, sýnist mér, að einhvers konar blanda, valkvæðir samningar eða skattlagning, væri skynsamlega niðurstaðan. (Forseti hringir.) Þetta er skrifað af ráðgjöfum slitastjórna og það bendir til þess að menn hafi kannski verið á þessum buxunun löngu fyrr.