144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[17:29]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Það er kannski ekki sanngjarnt að andsvörin snúist einkum um einn hlut ræðunnar, þ.e. söguskýringastríðið. Það er í raun og veru furðulegt að það skuli hafa komið upp, þetta söguskýringastríð, og bendir til þess að ekki séu algjörar sættir í hugum stjórnarliða um þá leið sem farin var. Mér þótti hér áðan, í samskiptum hv. þingmanna Árna Páls Árnasonar og Karls Garðarssonar, sem stjórnarandstæðingurinn væri að verja þá leið sem ríkisstjórnin fór en stjórnarliðinn í raun og veru að draga í land með hana.

Ég held að þetta sé alveg rétt. Ég held að það sé líka rétt að eftir allt saman skiptir það ekki höfuðmáli hver greiddi atkvæði hvernig árið 2012 eða 2011 eða hvenær það var. Það sem skiptir máli fyrir þjóðina, fyrir sögu landsins og ákvarðanir framtíðarinnar, er það að hér tókst mönnum að lokum, hvernig sem það gerðist nú, að fara samningaleiðina. Hún hefur dugað okkur Íslendingum best. Það kemur auðvitað fyrir að mönnum er nauðugur einn kostur. Landið var hernumið árið 1940, það var engin samningaleið í boði. Það má líka segja það um ýmis tengd tíðindi sem ég ætla ekki að fara út í.

Menn hafa líka borið gæfu til að fara ekki samningaleiðina, hún á ekki að vera automatísk. Landhelgismálið 1958 og síðari tíðindi voru auðvitað ekki samningaleið, en þá urðum við að berja frá okkur. Það var þannig. Miklu minna mál sögulega var svo Icesave sem við þekkjum vel hér. Þar má segja að samningaleiðin hafi ekki verið farin, en það munaði svo sannarlega mjóu. Annað dæmi úr sögunni, þegar samningaleiðin var ekki farin, var baráttan um stóra lánið 1929, sem Ólafur Björnsson, hagfræðingur og sjálfstæðismaður, segir í ágætu riti að hafi í raun og veru framlengt heimskreppuna á Íslandi um fimm ár; menn (Forseti hringir.) vildu vera með derring og vildu ekki fara samningaleiðina við sér miklu stærri og voldugri andstæðinga.