144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[17:37]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Við erum að ræða fyrsta af þremur áföngum í losun hafta og meginmarkmiðið þegar kemur að þessum fyrsta áfanga er að tryggja að uppgjör þrotabúanna, slitabúanna, rúmist innan stöðugleikaramma eins og hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson hefur talað um, efnahagslegs stöðugleika. Það kemur skýrt fram í frumvarpinu að markmið með því sé efnahagslegur stöðugleiki. Að vísu er síðan líka talað um að hafa almannahag að leiðarljósi.

Leiðin sem ríkisstjórnin hefur farið er efnahagslegur stöðugleiki en það hefði verið hægt að fara aðra leið. Í umræðunni er einhvers konar full skaðabót, að skaðinn sem Ísland varð fyrir vegna efnahagshrunsins yrði að fullu bættur. Sú leið er ekki farin, það er verið að fara stöðugleikaleiðina hvort sem það er rétt ákvörðun eða ekki, ég veit það ekki. Í rauninni er það gildismat í sjálfu sér hvort við viljum fara fram á fulla skaðabót þó að sú leið gæti verið vörðuð vandkvæðum um meiri óvissu. Maður nær því kannski ekki fram og getur þá staðið uppi með minna í höndunum þegar upp er staðið eftir lögsóknir og slíkt. Þetta er gildismat eins og í Icesave-umræðunni. Icesave-umræðan var gildismat, umræðan í samfélaginu byrjaði grunnt en vegna þess að þjóðin sá fram á að hún gæti bundið hendur löggjafans í þjóðaratkvæðagreiðslu varð umræðan dýpri og dýpri, stóð í lengri tíma og á endanum grundvallaðist hún meðal annars á því gildi hvort mönnum fyndist rétt að Íslendingar ættu að greiða fyrir þennan skaða sem varð eða hvort erlendir aðilar ættu að greiða fyrir hann. Það er gildismatið sem þá var uppi.

Þar var líka ákveðið gildismat um hver áhættan væri. Mönnum sýndist mismunandi í því efni hvar áhættan raunverulega væri. Hún grundvallaðist þó á gildismati. Gildismatið sem ríkisstjórnin hefur valið hvað þetta varðar er ekki full skaðabót heldur efnahagslegur stöðugleiki. Frumvörpin virðast vera bara nokkuð vel unnin og þetta er leið sem virðist geta falið í sér ákveðinn stöðugleika. Ef maður horfir á stöðugleika sér maður að það er strax búið að eyða ákveðnum óvissuþáttum vegna samtals ráðgjafa ríkisstjórnarinnar við stærstu kröfuhafana. Strax eftir að þessi frumvörp koma fram lýsa kröfuhafarnir því yfir að þeir séu ánægðir með þá leið að fara leið efnahagslegs stöðugleika. Það er í sjálfu sér góðs viti strax í upphafi en það er tvennt sem ég hef samt sérstaklega áhyggjur af þegar kemur að þessum leiðum. Annað er að ef þessi stöðugleikarammi, ramminn sem slitabúin fá, er of víður verður hagur almennings og fyrirtækja og hins opinbera á Íslandi þeim mun þrengri á sama tíma. Ég veit ekki nákvæmlega hverjar tölurnar eru, það hefur ekki alveg komið skýrt fram. Það veltur á ýmsum þáttum sem ekki hafa verið kynntir fyrir okkur í svokallaðri samráðsnefnd flokkanna varðandi afnám hafta. Réttnefnið er að sjálfsögðu ekki samráðsnefnd, það er ekkert sameiginlegt ráð um það hvernig þessu skuli háttað, þetta eru upplýsingafundir sem mikilvægt var að hafa, en köllum hlutina réttum nöfnum. Á þessum upplýsingafundum í þessari svokölluðu samráðsnefnd höfum við fengið ýmsar upplýsingar en það hefur ekki komið skýrt fram hvað þetta raunverulega mun þýða í peningum, hve mikið ríkið muni fá til sín og svo hvernig ýmislegt muni rata inn í Seðlabankann, uppgreiðsla lána til að klára að uppfylla kosningaloforð Framsóknarflokksins o.s.frv. eftir því hvort menn fara þá leið sem segir í stöðugleikaskattsfrumvarpinu, hvort þau fari nauðasamningaleiðina og taka á sig skattinn eða hvort slitabúin ákveði að fara nauðasamningaleiðina, uppgjörsleiðina, og falla þá ekki undir skattinn. Menn verða þá að skila eftir öðrum leiðum inn í Seðlabankann og mögulega ríkissjóð líka. Þessar tölur verða samt að liggja á hreinu og það er nokkuð sem við munum þurfa að skoða og munum leitast eftir að fá á hreint í umræðu í nefndinni, frá ráðuneytunum og fleiri aðilum. Þar fáum við þá að sjá hver raunverulegi ramminn er sem þessi slitabú fá til að taka út og í kjölfarið á þeim aðgerðum getum við farið að meta hversu þröngur stakkur er búinn Íslendingum.

Hitt atriðið sem ég hef sérstakar áhyggjur af er það hvernig því fjármagni sem þó fer í ríkissjóð er ráðstafað. Ef við förum eftir fyrra frumvarpinu, frumvarpinu um stöðugleikaskatt, kemur leiðin fram bæði á síðu 34 og 23 í frumvarpinu. Það er að vísu ekki alveg það sama í báðum. Á síðu 34 er sagt:

„Áformað er að skatttekjunum verði í fyrsta lagi varið til að mæta lækkun tekna af sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki sem leiðir af frumvarpi þessu og uppgjöri slitabúanna.“

Skatturinn sem er núna á slitabúin, sem er að fjármagna kosningaloforð Framsóknarflokksins, sem var vel að merkja góð leið til að fjármagna það, fellur náttúrlega niður þegar slitabúin eru farin í þrot eða búin að taka á sig hinn skattinn, stöðugleikaskattinn, og þá þarf einhvern veginn að fjármagna það. Í fyrsta lagi verður tekinn til hliðar peningur til að klára að borga fyrir það kosningaloforð. Þetta segir á síðu 34:

„Í öðru lagi verði þeim varið til uppgreiðslu skuldabréfs sem ríkissjóður gaf út til endurfjármögnunar Seðlabanka Íslands …“

Mér sýnist að eitthvað af þessu láni upp á 200 milljarða sem ríkissjóður tók til að endurfjármagna Seðlabankann hafi verið greitt upp og restin verður þá greidd upp. Aftur á móti er þessu akkúrat snúið á haus á síðu 23. Þar segir:

„Ríkissjóður mun því nýta innheimtan skatt fyrst til að greiða niður skuldabréf sem gefið var út til handa Seðlabanka Íslands. […] Öðrum tekjum ríkissjóðs af skattinum, að undanskildum töpuðum tekjum af annarri skattheimtu á skattaðilana“ — það er kosningaloforð Framsóknarflokksins, skattinum á þrotabúin, sérstaka skattinum — „verður ráðstafað á sérstakan innstæðureikning ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands …“

Í öðru lagi var þetta þannig að það er ekkert samræmi þarna sem er áhugavert í sjálfu sér. Þetta er kannski til að endurspegla það að þetta eru þær mismunandi leiðir sem annars vegar Framsóknarflokkurinn og hins vegar Sjálfstæðisflokkurinn vilja fara í þessu. Þetta eru sem sagt þessi fyrstu tvö atriði þannig að ríkissjóður tekur þennan skatt, ef það er sú leið sem er farin að slitabúin klára ekki nauðasamninga heldur fara aðra leið og þá er það ekki seinna frumvarpið heldur fyrra, stöðugleikaskattur, hann er borgaður, hann fer inn í ríkissjóð, honum er annars vegar varið til að borga upp lán Seðlabankans, 145 milljarða, og hins vegar uppfylla kosningaloforð Framsóknarflokksins. Hvað er mikið eftir af því? Getur einhver í salnum sagt mér það, hvað á eftir að uppfylla mikið af kosningaloforðunum? Eru 40 milljarðar eftir eða eru það 60 milljarðar upp í þessa 80 milljarða í heild? (Gripið fram í: Já, það er …) (Forseti hringir.) … búinn að vera í tvö ár þannig að …

(Forseti (SilG): Ræðumaður er með orðið. Forseti biður þingmenn um að vera ekki með samtöl í þingsalnum.)

Ég biðst afsökunar á því en þá höfum við að minnsta kosti tölurnar. Þá eru líklega 40 milljarðar þar. Eftir að búið er að gera þetta og búið að borga upp eins og kemur fram á síðu 34 aftur eru einhvers konar víxl- og skammtímaskuldabréf ríkissjóðs í eigu slitabúanna samtals 11 milljarðar. Það hverfur og þá eru komnir 150 milljarðar í heildina sem er búið að greiða sem skuldir. Restin sem kemur hérna fram gæti numið tæplega 500 milljörðum.

„Verður þessum fjármunum, eftir því sem tækifæri gefast, varið til lækkunar skulda hins opinbera“ en eins og kom fram áður fer þetta, er mér sagt, inn á hlaupareikning í Seðlabankanum. Á síðu 34 er sagt að þessum fjármunum skuli varið til lækkunar á skuldabréfum hins opinbera. Í upphafsgrein um markmiðið kemur fram að í frumvarpi til fjárlaga skuli gerð grein fyrir áætlaðri meðferð og ráðstöfun fjármuna. Ráðherra skal hafa samráð við Seðlabanka Íslands um mat á áhrifum þessa á efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika.

Örlítið ofar segir, með leyfi forseta:

„Þeir fjármunir sem falla til við skattlagningu samkvæmt lögum þessum skulu renna í ríkissjóð og skal ráðstöfun fjárins samrýmast markmiðum um efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika.“

Þetta virðist binda hendur fjármálaráðherra sem og þingsins en gerir það einmitt ekki. Tæplega 500 milljarðar munu liggja inni á hlaupareikningi ríkissjóðs í Seðlabankanum sem er hægt að ráðstafa á fjárlögum. Og hver treystir stjórnmálamönnum sem hafa aðgang að 500 milljörðum í kökuboxi í Seðlabankanum til að seilast ekki í það kökubox? Auðvitað viljum við öll fá að nota það sem er í þessu kökuboxi til að byggja upp samfélagið. Heilbrigðiskerfið sárvantar fé. Samkvæmt forstöðumönnum heilbrigðiskerfisins sjálfs sem ég hafði samband við við gerð breytingartillögu síðustu fjárlaga vantar 3 milljarða í það miðað við þau fjárlög sem voru afgreidd síðast. Þar sárvantar 3 milljarða. Hvaða stjórnmálamaður ætlar að standa gegn því þegar kemur þrýstingur á að þeir verði teknir til að fjármagna uppbygginguna? Og hvers vegna ættum við ekki að nota þessa peninga til að byggja upp samfélagið? Kannski ættum við að gera það. Þá erum við strax byrjuð að tala um það, en hvað gerist þá? Það sem gerist eða hefur komið fram í umræðunni að gæti gerst er að kröfuhafarnir sem fengu þennan háa skatt á sig, sem er svo sem klárlega réttmætur en hann er hár, gætu farið að væla og sagt: Heyrðu, þeir tóku þennan skatt til að fjármagna uppbyggingu. Þetta er bara þjófnaður.

Þeir gætu unnið slíkt mál og þá er það bara sjálfstætt atriði. Ætlum við að taka þá áhættu? Þá er aftur komið inn á það gildismatsatriði en þetta er staðan sem gæti komið. Ég sé fáa stjórnmálamenn sem treysta sér til að standa frammi fyrir kjósendum í aðdraganda næstu kosninga og segja ekki: Við ætlum að nota þessa peninga til að byggja upp. Það er mjög líklegt að að minnsta kosti einhver einn fari af stað og segi þetta og þá erum við komin í áhættuástand sem er algjörlega andstætt yfirlýstum tilgangi þessara frumvarpa sem er efnahagslegur stöðugleiki.

Ef við ætlum að fara leið efnahagslegs stöðugleika eigum við að vera samkvæm sjálfum okkur í því. Kökuboxið í Seðlabankanum með peningunum er ekki læst. Ef við ætlum að tryggja efnahagslegan stöðugleika og að stjórnmálamenn seilist ekki í kökuboxið þarf að læsa því betur. Það er ekki nógu vel gert í þessum frumvörpum. Það er hægt að læsa því. Það eru fordæmi fyrir alls konar leiðum til þess. Eitt er norski olíusjóðurinn. Hann situr þarna og hann á bara nota á ákveðnum forsendum. Þingið getur að sjálfsögðu breytt því en það gerir það ekki í þessum sjálfkrafa fjárlögum sem alltaf eru. Þá þarf að leggja fram sérstakt lagafrumvarp til að breyta lögunum um olíusjóðinn. Það væri hægt að gera, festa hérna inni að það væri einhver sjóður sem færi í að greiða upp skuldir ríkissjóðs eftir því sem efnahagslegur stöðugleiki byði upp á. Hvað gerist þá? Skuldirnar munu lækka sem er mikið gleðiefni. Samkvæmt þessum tölum munu þær lækka um 145 + 11, þá erum við strax komin í 156 milljarða. Samkvæmt því sem kom fram í samráðshópnum [Hlátur í þingsal.] eru þetta að meðaltali 5% vextir á ríkisskuldunum, yfir það heila ef við notum þumalputtaregluna á það, og þá eru þetta 7,5 milljarðar sem er svipað og veiðigjöldin voru lækkuð um á sínum tíma og 75% af auðlegðarskattinum sem voru einir 10 milljarðar. Þetta eru strax orðnir svolitlir peningar sem minnka vaxtabyrði ríkissjóðs. Við þurfum að borga 7,5 milljörðum minna út og höfum strax það svigrúm. Það er mjög gott. Eftir því sem fram vindur og ef við notum kökuboxið í Seðlabankanum til að borga upp skuldirnar verður alltaf meira svigrúm. Þannig værum við alveg innan ramma þess sem kveðið er á um í þessu frumvarpi, um það að halda fókusnum á efnahagslegan stöðugleika. Ef kökuboxið er ekki læst er ekki búið að tryggja efnahagslegan stöðugleika með þessu frumvarpi og þá eigum við bara að vera heiðarleg með það. Þá ætlum við kannski bara að fara aðra leið. Kannski er það betri leið. Ég veit það ekki en við munum ekki vita það nema við tökum þá umræðu og skoðum það.

Ég tek þetta saman. Að mörgu leyti til eru þetta góð frumvörp og munu strax skapa ávinning fyrir land og þjóð. Það er hins vegar tvennt sem ég sé sem áhyggjuefni, annars vegar hver raunverulegur rammi er eftir að búið er að gera þetta allt saman upp og við þurfum að fá þær tölur. Þeim mun víðari sem ramminn fyrir þrotabúin verður, þeim mun þrengri verður kostur landsmanna. Og ef kökuboxið í Seðlabankanum er jafn ólæst og það er í þessum frumvörpum er mikill freistnivandi til að fara út fyrir meginmarkmið þessa frumvarps sem er efnahagslegur stöðugleiki. Við verðum að taka þetta allt vel til hliðsjónar og skoða það í nefndinni.