144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[17:53]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Það eru mikil tímamót þegar nú sér loks fyrir endann á hinum ströngu gjaldeyrishöftum sem þjóðin hefur búið við um sjö ára skeið. Einstaklingar og fyrirtæki geta smám saman farið að starfa með eðlilegum hætti á alþjóðlegum mörkuðum sem okkur er nauðsyn og við getum á sama tíma farið að sjá fyrir endann á bankahruninu.

Ég vil óska forustumönnum ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsætisráðherra Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssyni, til hamingju með frábæra vinnu sem og þeim stóra hópi manna sem stendur að baki þessu verki, einnig síðustu ríkisstjórn. Þegar upp verður staðið er öruggt að afnám gjaldeyrishafta á Íslandi er eitt af stærstu málum íslenskra stjórnmála á síðari tímum og mikið gleðiefni að sjá hversu vandað virðist vera til verka í þessu máli og hve djúp greining hefur farið fram á vandanum sem þurfti að leysa og umfangi hans.

En þrátt fyrir að það séu afar jákvæð tíðindi að gjaldeyrishöftin séu nú loks á förum eiga þau engu að síður ótvíræðan þátt í þeim árangri sem hefur náðst á undanförnum árum við að snúa djúpri efnahagslægð í efnahagsbata hér á landi. En ef svo miklum höftum hefði verið haldið lengur hefði það hins vegar stefnt þjóðarbúi okkar inn á braut minni hagvaxtar sem auðvitað yrði til að draga úr velferð í landinu.

Mig langar aðeins að víkja að tímalínunni í þessu mikilvæga máli eins og henni er lýst í greinargerð með frumvarpinu og sýnir betur en nokkuð annað hversu gríðarlega langt, flókið og erfitt ferli þetta hefur verið. Í júlí 2009 samþykkti þáverandi ríkisstjórn áætlun um losun hafta sem unnin var af Seðlabanka Íslands í samráði við viðkomandi ráðuneyti og með tæknilegri aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Yfirstjórn verkefnisins var í höndum stýrinefndar um losun fjármagnshafta undir forustu ráðherra efnahagsmála. Fyrsta skrefið að losun fjármagnshafta var stigið 30. október 2009 með því að heimila innstreymi erlends gjaldeyris til nýfjárfestinga og útstreymi gjaldeyris sem kynni að leiða af því í framtíðinni.

Í mars 2011 samþykkti þáverandi ríkisstjórn nýja áætlun um losun hafta. Áætlunin var unnin af Seðlabanka Íslands í samstarfi við viðkomandi ráðuneyti og í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Áætlunin var tvískipt; að lækka stöðu aflandskróna og í seinni áfanga að losa höft á aðrar krónur. Áætlunin var ekki tímasett heldur tók framgangur hennar mið af ákveðnum þjóðhagslegum skilyrðum sem þurftu að vera til staðar við losun hafta.

Í samræmi við þessa áætlun hélt Seðlabanki Íslands gjaldeyrisútboð og jafnframt átti sér stað frekari aflétting hafta með rýmkun á tilteknum heimildum sem fyrst og fremst voru miðaðar að því að gagnast minni fyrirtækjum og einstaklingum. En á haustmánuðum 2013 þegar ný ríkisstjórn var komin til valda samþykkti ráðherranefnd um efnahagsmál breytingar á skipulagi vinnu við losun fjármagnshafta. Yfirstjórn verkefnisins var áfram í höndum áðurnefndrar stýrinefndar en skipaður var sex manna ráðgjafarhópur með það hlutverk að gera tillögur um einstök skref og áætlun um losun fjármagnshafta. Hópurinn vann mat á erlendri stöðu þrotabúsins og efnahagslegum stöðugleika og greindi lykilatriði haftalosunaráætlunarinnar frá 2011, þar með talið uppgjör hinna föllnu banka. Greiningu og tillögum var skilað til ráðherranefndar um efnahagsmál í mars 2014.

Í byrjun júlí 2014 samdi fjármála- og efnahagsráðuneytið, að höfðu samráði við ráðherranefnd og stýrinefnd, við lögmannsstofuna Cleary Gottlieb Steen & Hamilton LLP, ráðgjafafyrirtækið White Oak Advisory LLP og Anne Krueger, prófessor í hagfræði við Johns Hopkins University og fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, um að vinna með íslenskum stjórnvöldum að losun hafta. Jafnframt voru ráðnir fjórir sérfræðingar í framkvæmdahóp til að vinna með fyrrgreindum ráðgjöfum í umboði stýrinefndar. Fulltrúar frá Seðlabanka Íslands komu inn í framkvæmdahópinn í janúar 2015.

Framkvæmdahópurinn vann náið með erlendu ráðgjöfunum, fulltrúum úr forsætisráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti og Seðlabanka Íslands að heildstæðri lausn sem tæki á öllum þáttum fjármagnshaftanna. Sú vinna sneri bæði að lagalegum og efnahagslegum þáttum og þá sérstaklega þjóðhagslegum skilyrðum við losun hafta og mögulegri veitingu undanþágna. Þá höfðu framkvæmdahópurinn og erlendir ráðgjafar stjórnvalda samskipti við ýmsa aðila, m.a. alþjóðastofnanir og margs konar hagsmunaaðila, til að draga fram hugmyndir og sjónarmið þeirra inn í þá vinnu. Á grundvelli hennar skilaði framkvæmdahópurinn tillögum um losun hafta til stýrinefndar í desember 2014.

Fjórða desember 2014 veitti Seðlabankinn gamla Landsbankanum undanþágu fyrir greiðslu 400 milljarða kr. til forgangskröfuhafa. Að auki veitti Seðlabankinn vilyrði fyrir frekari undanþágum að framtíðarinnheimtu gamla Landsbankans. Þessi undanþága liðkaði fyrir samþykktum á skilmálabreytingum af skuldabréfinu sem voru undirritaðar í vor en þær fela í sér lengingu á líftíma þess vegna þess að hin þunga afborgunarbyrði á skuldum Landsbankans við forvera sinn skapaði áhættu fyrir greiðslujöfnun landsins. Þarna var mikilvægt skref stigið sem einfaldaði stjórnvöldum að ráðast í heildstæða aðgerð um losun fjármagnshafta.

Hinn 6. mars 2015 var gerð breyting á undanþágulistum Seðlabanka Íslands í þeim tilgangi að búa í haginn fyrir frekari skref að losun fjármagnshafta með því að fækka flokkum fjármálagerninga á undanþágulista. Og nú sjáum við heildstæða nálgun við losun fjármagnshafta með frumvörpum þeim sem nú liggja fyrir og byggjast á tillögum framkvæmdahópsins og þeirri ítarlegu greiningarvinnu sem hópurinn hefur unnið í samráði við ráðgjafa stjórnvalda, Seðlabankann og fjölmarga aðila innan og utan stjórnkerfisins.

Virðulegi forseti. Samkvæmt áætluninni sem kynnt var í Hörpu á mánudag er gert ráð fyrir að nauðasamningar eða stöðugleikaskattur í tengslum við afnám gjaldeyrishaftanna skili um 680 milljörðum kr. í ríkissjóð. Eins og hæstv. fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, hefur bent á er kveðið á um hvernig fara eigi með þá peninga í þessum frumvörpum, þ.e. að nota eigi þá til að borga niður skuldir ríkissjóðs. Þetta er lykilatriði og afar þýðingarmikið. Gert er ráð fyrir að í fjárlagafrumvarpi hvers árs verði farið yfir hvernig hægt verður að greiða niður skuldir og er það Seðlabankans að meta áhrif peningamagns í umferð. Þá mun skapast mikið svigrúm með minnkandi skuldum ríkisins því að samhliða verður greiðslubyrði vaxta mun lægri. Þetta svigrúm getur hlaupið á tugum milljarða króna sem nota verður til að byggja upp innviði hér á landi. En það verður að stíga varlega til jarðar í þessum efnum og í samræmi við efnahagslífið og ástand þess hverju sinni. En það er algert grundvallaratriði að greiða niður skuldir og lækka vaxtabyrði ríkissjóðs.

Það er auðvitað ekkert nema fagnaðarefni ef hægt verður að nota ofangreint svigrúm til að gera meira í heilbrigðismálum og menntamálum, velferðarmálum, samgöngumálum o.s.frv. en það verður að gera í samræmi við ábyrga ríkisfjármálastefnu. Við sjálfstæðismenn hljótum að leggja áherslu á það svigrúm sem skapast sem nýst gæti almenningi og fyrirtækjum með því að hægt verði að lækka tolla, skatta og önnur gjöld.

Að lokum þetta. Almenningur tók á sig gríðarlegt högg við fall bankanna og nú í reynd er komið að þeim vendipunkti að föllnu bankarnir og slitastjórnir þeirra verða að axla meginbyrðarnar við að afnema höftin.