144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[18:03]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er rólegt yfir sem er ágætt miðað við það sem á hefur gengið hér á undanförnum dögum.

Hæstv. forsætisráðherra sagði við okkur áðan að við ættum að gleðjast, þetta væri gleðidagur. Ég er sammála honum í því þótt ástæður okkar tveggja til að gleðjast séu kannski ekki alveg sprottnar af sama meiði. Ég gleðst vegna þess að loksins virðist vera að nást aftur samstaða um afnám hafta, hvaða leiðir eigi að fara og með hvaða hætti eigi að nálgast málið.

Við höfum áður náð saman um þessi mál og ég get tekið sem dæmi um það að við náðum saman um þau í umræðu sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson kallaði eftir, sérstakri umræðu í febrúar 2013. Þá kom fram í máli þingmanna allra flokka að menn voru nokkurn veginn á sömu blaðsíðu um þetta mál. Síðan splundruðumst við í allar áttir þegar fór að líða að kosningum og Framsóknarflokkurinn ákvað að gera þetta mál tortryggilegt og gera það sem þáverandi ríkisstjórn var að gera varðandi uppgjör þrotabúanna og frágang á þeim og aðrar aðgerðir varðandi afnám hafta tortryggilegt og gefa í skyn að menn væru að vinna að einhverju sem ekki þjónaði íslenskum hagsmunum. Menn ákváðu með öðrum orðum að taka þetta brýna, mikilvæga mál út úr ferli sátta og samstöðu í pólitíkinni, sem er nauðsynlegt til að við náum sem bestum árangri, og setja í átakafarveg til að freista þess að auka við fylgi sitt í kosningum og það tókst þeim. Ég ætla að fara betur yfir þetta á eftir í ræðu minni.

Frá hruni hafa verið gríðarlega erfiðir tímar sem stjórnvöld hafa þurft að takast á við. Ég ætla ekki að vera sú sem segir að það sé eitthvert létt verk að baki því sem hér er skilað til okkar í nýrri áætlun um afnám hafta og uppgjör þrotabúanna, í þeirri niðurstöðu sem hér hefur náðst, ég veit að hér býr mikil vinna að baki og þetta hefur verið hörkuvinna vegna þess að ég hef sjálf staðið í þeim sporum að vera í ríkisstjórn sem þurfti að fást við þetta. Það var einfaldlega þannig að framan af síðasta kjörtímabili vissum við ekki hvernig staðan var, þ.e. umfang vandans lá ekki fyrir, það lágu ekki fyrir greiningar á því hversu mikinn þrýsting einstakir þættir þessa máls sköpuðu t.d. á krónuna. Þegar í ljós kom á haustdögum 2012 hvert umfang þessara þrotabúa var, hvers eðlis þau voru og hinar mismunandi tegundir fjármagns og eigna sem þar voru inni, þegar það lá allt saman fyrir gátum við sem þá vorum í ríkisstjórn farið að vinna úr málinu.

Okkur hefur oft verið legið á hálsi fyrir það og menn hafa í pólitísku upphlaupi og pólitískum popúlisma ákveðið að láta fyrrverandi ríkisstjórn sitja uppi með það að hafa ekki sett á bankaskatt á þrotabúin og látið þrotabúin heyra undir þann skatt. Það er auðvitað popúlismi vegna þess að það er algerlega ljóst að þegar sú ríkisstjórn var að vinna sín síðustu fjárlög og undirbúa þau og þar með tekjuöflunarfrumvarpið þá fyrst var andlag skattlagningarinnar á þrotabúinu að verða ljóst, það var ekki fyrr en þá. Menn hafa verið alveg ótrúlega ómerkilegir í ræðuflutningi og málflutningi í þessum ræðustóli og annars staðar og haldið öðru fram eingöngu í pólitískum tilgangi. Það eru aðallega þingmenn Framsóknarflokksins sem það hafa gert og ekki síst formaður hans. Við vissum og það vita það allir sem eitthvað hafa fylgst með málinu að andlagið var ekki til fyrr en núverandi ríkisstjórn tók við og hún greip þá til þeirra ráðstafana sem fráfarandi ríkisstjórn hefði einnig gert til að setja þrotabúin undir skattlagningu á banka.

Af hverju fjalla ég um þetta hér? Jú, það er vegna þess að núna þegar við erum að ná þessari niðurstöðu og erum loksins komin aftur á sömu blaðsíðu þá finnst mér ágætt að gera upp ákveðna hluti og mér finnst að við ættum að hafa örlítið leyfi til þess og fara yfir þetta sjö ára tímabil, hvernig það hefur verið og hvað hefur gerst af því að ótrúlega mikið í málflutningi framsóknarmanna hefur verið beinlínis rangt. Honum hefur verið ætlað að villa um fyrir fólki og menn hafa verið að slá sér upp á röngum málflutningi og farið einfaldlega rangt með það sem gert var af hálfu síðustu ríkisstjórnar og er það miður og mér finnst gott að fá tækifæri til að skýra ákveðna þætti í málinu.

Það var algerlega ljóst að á þessum tíma, haustið 2012, fórum við að sjá þessa kortlagningu alla saman, sáum umfangið og hvernig ólíkar gerðir fjármuna innan þrotabúanna höfðu áhrif á greiðslujafnaðarvandann og sköpuðu þrýsting á gengi krónunnar. Þá strax fór þáverandi ríkisstjórn í þá vinnu, ég var þá fjármála- og efnahagsráðherra og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra, og við hófum aftur vinnu svokallaðrar stýrinefndar um afnám hafta sem hittist töluvert oft á þessum vetri, vetrinum 2012–2013, vegna þess að það var ljóst að menn þyrftu að fara að grípa til aðgerða.

Það sem við gerðum strax, og ég greindi frá því í þessum ræðustóli sem fjármála- og efnahagsráðherra í umræðum í þinginu sem stofnað var til eins og ég sagði áðan af hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, var að fara vandlega yfir það hvað við værum að gera. Það sem eðlilegt var að gera strax á þessum tíma þegar þessar upplýsingar lágu fyrir og við vorum komin með skýra mynd af því hvað það var sem skapaði þrýsting á gengi krónunnar og skapaði greiðslujafnaðarvandann, við vorum komin með skýra mynd af samsetningunni á því, var að setjast niður og kortleggja stöðuna og setja upp ákveðnar ólíkar sviðsmyndir, þ.e. hvernig væri hægt að leysa úr höftunum út frá þessum upplýsingum og hvernig menn gætu mætt þeirri stöðu sem uppi var varðandi þrotabúin. Þrotabúin voru á þessum tíma að skila inn undanþágubeiðnum til Seðlabankans vegna uppgjöra sinna og Seðlabankinn tók þá skýru afstöðu undir jól eða í lok árs 2012 að gefa ekki út reglur eins og lögbundið er um það með hvaða hætti væri hægt að ganga í þetta vegna þess að ákveðið var að stjórnvöld þyrftu að koma að þessu og menn þyrftu að kortleggja þetta í sameiningu og reyna að gera þetta sem allra allra best. Það var líka algerlega ljóst á þeim tíma að menn mundu þurfa að færa íslensku krónueignirnar mjög mikið niður, það kom t.d. fram í máli seðlabankastjóra þess tíma, það kom fram í máli mínu sem þá var fjármála- og efnahagsráðherra og þetta er til kortlagt víða, þetta er til í fjölmiðlum, þetta er til víða. Talað var um að færa þær niður um 75% og sviðsmyndirnar sem við unnum með í stýrinefnd um afnám hafta fóru allt niður í núll, þ.e. að menn skildu allt eftir og tækju ekkert af íslensku eignunum o.s.frv., þetta var unnið þannig.

Við þurftum auðvitað líka að horfast í augu við það að fram undan voru kosningar á þessum vetri og við gerðum okkur vel grein fyrir því. Það var þess vegna sem við ákváðum að vera í góðu samráði við þáverandi stjórnarandstöðuformenn og ég átti fundi með formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni, og Þór Saari sem þá var hér þingmaður og fór fyrir Hreyfingunni og núverandi hæstv. forsætisráðherra, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Við áttum fundi, ekki með þeim öllum saman heldur átti ég fundi með hverjum og einum, þar sem við fórum vandlega yfir þessa stöðu, kynntum þeim hana í því augnamiði að reyna að skapa samstöðu um málið, líka vegna þess að við gerðum okkur vel grein fyrir því að við mundum ekki ljúka þessu máli fyrir kosningar og eins og staðan var þá var algerlega ljóst að hér mundi taka við ný stjórn. Þess vegna þótti okkur eðlilegt að ég mundi upplýsa þá um stöðuna til að tryggja samfellu í þessari vinnu og menn gætu gengið hratt og örugglega til verka á þeim tíma vegna þess að við vitum það að hvert ár sem höftin eru óleyst er þjóðfélaginu gríðarlega dýrt og kostnaðarsamt.

Virðulegi forseti. Það sem framsóknarmenn ákváðu að gera með þessar upplýsingar og það sem menn ákváðu að gera í stað þess að halda áfram í þessu samtali og samráði var að sprengja það upp og halda til kosningabaráttu með það að vopni að við værum einhvern veginn að verja hag kröfuhafa og þeir væru frelsarinn eini sem ætlaði að búa til svigrúm til að færa heimilunum í landinu.

Áðan var rætt um það að eini flokkurinn sem hefði rætt í aðdraganda kosninga um þetta svokallaða svigrúm sem við þetta mundi skapast hefði verið Framsóknarflokkurinn. Þá vil ég spyrja aðila eins og hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur sem kom hingað og spurði hv. þm. Árna Pál Árnason um þetta og ég vil líka spyrja hæstv. forsætisráðherra sem hélt því fram aftur og aftur að enginn annar en hann hefði viðurkennt svigrúmið. Hvað telur hann þá að ummæli mín, ummæli hv. þm. Árna Páls Árnasonar, ummæli seðlabankastjóra um að færa þyrfti þessar íslensku eignir hressilega niður, hafi falið í sér? Þau fólu akkúrat í sér það að þarna gæti skapast svigrúm, þ.e. ef menn gætu komið þeim eignum í verð sem færðar væru niður með þessum hætti þegar þessir aðilar færu héðan út. Þessu var öllu snúið á hvolf og menn gerðu beinlínis í því að reyna að gera það sem verið var að gera á þessum tíma tortryggilegt. Þess vegna er þetta gleðidagur vegna þess að í þessum frumvörpum er það beinlínis þannig að ríkisstjórnin hefur eftir tveggja ára vinnu komist að þeirri niðurstöðu að sú leið sem þáverandi ríkisstjórn var að vinna að og flokkar á Alþingi voru sammála um veturinn 2012–2013 áður en kosningaskjálftinn greip Framsóknarflokkinn væri heillavænlegasta leiðin. Það er staðfest í þessum frumvörpum. Það tók tvö ár að vinda ofan af málflutningi Framsóknarflokksins og það tók tvö ár að búa til PR-plan til að forsætisráðherra gæti komið standandi út úr þessu öllu saman. Þetta er staðreynd og ég ætla að fara yfir það hér vegna þess að í umræðum á þingi 13. febrúar árið 2013 þá fjöllum við um þetta og þar kemur fram að það muni þurfa að færa þessar eignir niður. Ég segi 13. febrúar á Alþingi að það muni þurfa að færa þessar eignir hressilega niður en ég segi líka að sem fjármála- og efnahagsráðherra eigi ég erfitt með að nefna einhverja tölu í því samhengi opinberlega vegna þess að það hefði getað skaðað hagsmuni okkar ef til einhvers konar samningaviðræðna kæmi. Í þessari umræðu um nauðasamninga þrotabúa föllnu bankanna sagði hv. þm. Eygló Harðardóttir sem nú er hæstv. húsnæðis- og félagsmálaráðherra að hún fagnaði þeirri áherslu sem kæmi fram í máli hæstv. ráðherra um mikilvægi þess að verkefnið væri unnið í sátt og samstöðu í þinginu. Þá sagði hún líka, með leyfi forseta:

„Að mati okkar framsóknarmanna eru þrjár leiðir færar til afnáms fjármagnshafta. Í einföldu máli er það í fyrsta lagi afskriftir skulda, í öðru lagi endurfjármögnun og í þriðja lagi aukin framleiðsla. Það er kjarninn.“

Þetta var stefna Framsóknarflokksins í febrúar árið 2013 og var kynnt hér í ræðu á Alþingi.

Í þessari umræðu tók líka þátt hv. þáverandi þingmaður Tryggvi Þór Herbertsson sem hafði setið í þverpólitískri samráðsnefnd um losun fjármagnshafta. Hann sagði að mikilvægt væri að hafnar yrðu samningaviðræður við kröfuhafa um hvernig hægt væri að leysa þetta mál. Og hann greindi líka frá því þann 13. febrúar 2013 að góð pólitísk samstaða hefði ríkt undanfarið ár eða svo og hann staðfesti líka að það var ekki fyrr en þá um haustið sem varpað var ljósi á stærð vandans og umfangið, þ.e. andlag bankaskattsins sem ég fór yfir áðan. Á þessum tíma voru menn sanngjarnir og horfðu á þetta mál eins og það var en bjuggu ekki til úr því einhvern pólitískan sirkus til að slá sér upp á.

Við höfum farið í gegnum samstöðu og sundrungu í þessu máli á undanförnum árum og það er þess vegna sem ég gleðst hér yfir þessari niðurstöðu. Það var sundrung í málinu hér í mars 2012 þegar við ákváðum að taka þrotabúin inn undir höft, þá sundruðumst við vegna þess að þá greiddi Sjálfstæðisflokkurinn atkvæði gegn því. Hann var á móti því að þrotabúin yrðu tekin undir höft og Framsóknarflokkurinn sat hjá vegna þess að menn treystu sér ekki til að fara í þennan leiðangur. En hvað hefur svo komið í ljós? Það hefur komið í ljós að þessi ákvörðun og samþykkt á Alþingi 12. mars 2012 er grundvöllur þeirrar stöðu sem málið er komið í í dag, grundvöllur þess að menn geti tekið á kröfuhöfunum. Hvernig leyfa menn sér síðan að standa hér eða annars staðar, hvar sem er, og halda því fram að þáverandi ríkisstjórn hafi með einhverjum hætti verið að verja kröfuhafana, hafi staðið vörð um þeirra hag? Hvernig má það vera þegar stærsta einstaka aðgerðin í sögu haftanna snerist um að taka þrotabúin inn undir höft, þrotabúin, eignir kröfuhafa, undir fjármagnshöft og ná þannig fullu valdi á þeim þannig að menn gætu tryggt þjóðarhagsmuni? Um það snerist þetta. Allt tal um að þáverandi ríkisstjórn hafi með einhverjum hætti unnið gegn þjóðarhagsmunum er fráleit í þessu samhengi og ég held að þeir framsóknarmenn sem svo hafa talað og eru enn að á netinu ef menn vilja fletta því upp ættu að skammast sín. Þeir gátu ekki einu sinni tekið þátt í þessu. Þeir skulfu á beinunum þegar hópar kröfuhafa mættu hér og mæltu gegn þessari ráðstöfun, skulfu hér á beinunum og sátu hjá við þessa ákvörðun. Þess vegna er innstæða fyrir þessu tali engin, gersamlega engin.

Ég vil nefna eitt í viðbót til að draga það fram hvernig Framsóknarflokkurinn talaði í aðdraganda síðustu kosninga og hversu langt hann gekk. Ég ætla að drepa niður í grein eftir Þorstein Sæmundsson sem þá var frambjóðandi Framsóknarflokksins og er núna þingmaður þess flokks. Í grein sem hann skrifar í Morgunblaðið sem heitir „Söguleg svik ríkisstjórnarinnar“ segir hann, með leyfi forseta:

„Ef marka má fréttir undirbýr ríkisstjórn velferðar nú söguleg svik gagnvart almenningi á Íslandi. Nú skal skera vogunarsjóði sem eignuðust íslenska banka fyrir slikk niður úr snörunni á kostnað heimilanna í landinu. Sé það rétt að til standi að gera samninga við vogunarsjóðina á síðustu dögum kjörtímabilsins er það þvílík ósvinna að því verður vart trúað.“

Hann heldur áfram og segir:

„Sé það svo eiga kjósendur aðeins eitt svar. Það er að koma fylgi þessara ólánsflokka niður fyrir 5% þannig að þeir þurrkist út af þingi í komandi kosningum.“

Þetta voru engin smáorð og brigslin í þessari grein voru þannig að um mann fór, ekki síst í ljósi þess að örfáum vikum áður hafði ég setið inni á skrifstofu minni í fjármálaráðuneytinu með formanni Framsóknarflokksins, lýst þessu fyrir honum og farið yfir það með honum að við mundum ekki ganga frá þessum málum fyrir kosningar. Þetta var allur heiðarleikinn og þetta fengum við framan í okkur þannig að ég mun hugsa mig um það tvisvar áður en ég á eitthvert trúnaðarsamtal eða samtal um mikilvæg málefni við þann ágæta ráðherra.

Virðulegi forseti. Ég var dálítið undrandi áðan vegna þess að þegar menn tala síðan um þetta þá er alltaf talað eins og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson gerði hér. Það er trú framsóknarmanna að svona hafi þetta verið. Þá er það með hreinum ólíkindum að þeir reyni að halda því fram að þessi niðurstaða hér sé einhver önnur en sú niðurstaða sem þáverandi ríkisstjórn var komin að. Ég ætla að nefna nokkur dæmi um það.

Í frétt í Viðskiptablaðinu frá því í mars 2013 kemur beinlínis fram að við séum að leita að erlendum sérfræðingi til að taka sæti í nýrri nefnd um losun haftanna. Hvað gerðu menn? Skipuðu nýja nefnd með erlendum sérfræðingi. Það eru fleiri atriði sem ég verð að nefna. Hæstv. ráðherra sagði hér áðan að ýta hefði þurft þeim sviðsmyndum sem hefðu legið fyrir í ráðuneytinu til hliðar vegna þess að í þeim hefði verið með einhverjum hætti gert ráð fyrir því að það yrðu viðskiptagerningar með bankana. Það er einfaldlega þannig að öll áhersla var lögð á það þá eins og nú að ríkið væri ekki beinn aðili og um væri að ræða einkaréttarleg viðskipti um allar krónueignir slitabúanna sem mundu færast yfir í eignasafn Seðlabankans og ef á þyrfti að halda eignarhaldsfélag Seðlabankans með lífeyrissjóðum o.s.frv. Lykilatriðið var að gæta að greiðslujöfnuði og stöðugleika og að allar íslenskar eignir færu frá slitabúunum og að endingu til ríkisins með endanlegu tilboði frá búunum til að hægt væri að samþykkja undanþágubeiðni þeirra vegna nauðasamninga. Það er nákvæmlega það sem verið er að gera hér, nákvæmlega. Og hvort útfærslan væri sú að slitabúin seldu einstakar eignir beint og létu svo ríkið fá aurinn eða, sem væri fljótlegra og gengi hraðast, að þau afhentu bara eignirnar strax og síðan væru þær seldar er algert aukaatriði í þessu máli. Hér er um sambærilega niðurstöðu að ræða og við vorum komin að og þegar þessi ríkisstjórn tók við lágu fyrir miklar upplýsingar í Seðlabankanum og fjármálaráðuneytinu um þessar leiðir og þess vegna fögnum við því að menn séu komnir að þessari niðurstöðu og við getum aftur farið að ganga í takt.

Ég vil nefna það, vegna þess að hér hefur dálítið verið talað um gulrætur og ýmis verkfæri og vopn sem menn hafa notað í baráttunni við kröfuhafana, að á vormánuðum 2013 unnum við með verkfæri undir heitinu „svipa og gulrót“ og það má með sanni segja að við höfum beitt þeim verkfærum býsna harkalega. Það má segja að fyrsta svipuhöggið hafi verið reitt 12. mars 2012. Síðan var það aftur í desember 2012 þegar Seðlabankinn frestaði útgáfu reglna um útgreiðslu úr þrotabúunum og síðan aftur í mars 2013 þegar við ákváðum að taka út sólarlagsákvæði í lögunum um höftin út þannig að við gætum sýnt fram á að við meintum það sem við segðum, að við ætluðum að fara í þetta mál af fullri hörku og verja íslenska hagsmuni og ganga eins langt og mögulegt væri til þess. Svo núna rúmlega tveimur árum seinna hafa menn dustað rykið af svipunni og eru komnir með hana aftur fram í formi þessa máls hér. Það er í þessu góð samfella og mig langar að nota tækifærið eins og aðrir hafa gert til að þakka stjórnsýslunni og þeim sem þar hafa unnið vel og mikið að þessu fyrir vinnu þeirra, sjö ára vinnu að þessum ofboðslega erfiðu málum sem hefur skilað þessari niðurstöðu. En þó ber að nefna og það er mikilvægt að vinnunni er ekki nærri því lokið. Hér er bara verið að klára einn hluta og menn munu ekki sjálfkrafa geta aflétt höftunum í framhaldi af þessu heldur er heilmikil vinna eftir. Við jafnaðarmenn erum tilbúnir til að koma að því og vinna hana með ríkisstjórninni vegna þess að við teljum að fjármagnshöftin séu mikið ólánstæki. Þau eru ósanngjörn, þau mismuna og þótt þau hafi verið verkfæri sem við þurftum á að halda eftir hrun þá er nú langt liðið frá hruni og mikilvægt að við förum að sjá fyrir endann á þeim.

Ég verð að segja að mér finnst ekki ganga að skoða ekki gjaldmiðilsmálin ef ríkisstjórnin ætlar að ráðast núna í losun fjármagnshafta — nota bene það verður ekki hægt að afnema höftin. Hæstv. fjármálaráðherra boðaði líka að áfram yrði unnið með hugmyndir sem uppi hafa verið í Seðlabankanum í nokkur ár um svokallaða þjóðhagsvarúð, þ.e. varúðarreglur vegna fjármagnsflutninga, menn sjá fyrir sér slíka varúð áfram en það breytir því ekki að menn þurfa að horfa til þess hvaða peningastefna á að taka við þegar menn hafa losnað við höftin. Ætlum við bara að halda áfram á sömu braut, halda áfram með verðtryggða krónu sem notuð er af íslenskum heimilum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum meðan stóru fyrirtækin og eignafólk getur notað aðra gjaldmiðla sem virka betur í alþjóðaviðskiptum? Hvað ætla menn að gera? Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst ríkisstjórnin sýna ansi mikið kæruleysi eða gáleysi þegar kemur að gjaldmiðilsmálunum. Ég tel að óhjákvæmilegt verði að ræða þau þegar við komum að því að gera frekari breytingar á löggjöf til að losa um fjármagnshöftin.

Það er áhugavert að í greinargerð með frumvarpi til laga um stöðugleikaskatt er fjallað um krónuna með ákveðnum hætti og mig langar að grípa niður í þá umfjöllun á bls. 17, með leyfi forseta:

„Umfang þess vanda sem stafar af uppgjöri slitabúanna er einstakt, en gjaldþrot þriggja stærstu viðskiptabankanna er samanlagt eitt stærsta gjaldþrot sögunnar. Úr því þarf að greiða innan eins smæsta hagkerfis Evrópu. Þessi vandi er hins vegar í eðli sínu tiltölulega hefðbundinn, en hann felst í markaðsbresti þar sem neikvæð ytri áhrif smitast yfir á mun breiðari hóp. Jafn umfangsmikil sala á krónum og yrði að óbreyttu í kjölfar útgreiðslu búa föllnu bankanna mundi valda mikilli gengislækkun, nema Seðlabankinn selji erlendan gjaldeyri úr forða til mótvægis. Gengislækkunin mundi veikja eiginfjárstöðu heimila og fyrirtækja, draga úr veðrými þeirra, minnka eftirspurn og þar með draga úr efnahagsumsvifum sem er til þess fallið að leiða til enn frekari gengis- og eignaverðslækkana. Kröfuhafar hinna föllnu fjármálafyrirtækja mundu að litlu leyti verða fyrir þessum neikvæðu áhrifum, sér í lagi þeir sem ekki ættu eignir innan lands eftir að hafa losað stöður sínar í gegnum gjaldeyrismarkaðinn. Hins vegar valda þessi viðskipti neikvæðum áhrifum á aðra aðila sem eiga ekki aðkomu að viðskiptunum, þ.m.t. heimili og almenn fyrirtæki. Þessi skaðlegu áhrif koma fram á markaði þar sem mikilvægasta verð íslenska hagkerfisins er ákvarðað, þ.e. gengi krónunnar.“

Virðulegi forseti. Hér er vandinn dreginn fram í hnotskurn í greinargerð með frumvarpi til laga um stöðugleikaskatt. Ætlum við í alvörunni að losa fjármagnshöft án þess að ræða það hvort við viljum þetta ástand áfram, að neikvæð ytri áhrif geti valdið markaðsbresti sem hafi áhrif á mun breiðari hóp en þann sem á í viðskiptunum, þ.e. heimili og íslensk fyrirtæki? Það er gáleysi og við getum ekki farið í þetta mál öðruvísi en að ræða gjaldmiðilinn og framtíðina.

Ég ætla að lokum að segja þetta: Ég fagna enn og aftur þessari niðurstöðu. Ég tel að hún sé til þess fallin að skapa aftur sátt um málið. Ég fagna því líka að Framsóknarflokkurinn hafi kúvent í afstöðu sinni til málsins og sé tilbúinn til að fara þessa leið með okkur hinum, fara þessa ábyrgu leið, vegna þess að ég tel að í gjaldþrotaleiðinni sem hæstv. forsætisráðherra talaði mikið fyrir hefðu getað falist margar hættur og mikil óvissa sem hefði getað haft skaðleg áhrif til lengri tíma. Hér er að mínu mati farin skynsamleg leið sem ég tel að geti orðið til þess að við sjáum fram á bjartari tíma á Íslandi og svo lengi sem menn fara í losun á fjármagnshöftum með það að augnamiði að horfa líka til gengis íslensku krónunnar, sé það enn betra og muni skapa enn betri niðurstöðu.