144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[18:34]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við ræðum um tvö frumvörp samhliða, um stöðugleikaskatt annars vegar og hins vegar um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki sem snýr að því að liðka til, við getum orðað það svo, fyrir mögulegum samningum við slitabú, þann hluta af þeim eignum sem þarf að eiga við.

Ég þakka hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur fyrir ræðu hennar hér á undan sem ég er nú að koma upp í andsvar við. En ég vil þó, af því að ég er í fyrsta sinni að ræða þetta mál hér í andsvari, óska ríkisstjórn Íslands, okkur öllum og hv. þingheimi og þjóðinni til hamingju með þetta risastóra efnahagsmál og þá áætlun sem hefur verið birt, og ekki síst öllum þeim sérfræðingum og ráðgjöfum sem komu að því að koma með þá úrlausn sem við erum að ræða og áætlun um losun hafta.

En að ræðu hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur, sem þekkir auðvitað þetta ferli allt saman og var hér á síðasta kjörtímabili og stóð í ströngu að berjast við ýmsar ógnir sem steðjuðu að. Ég ætla að koma því að að ég ætla engum, bara svo það sé sagt, hv. þingmanni annað en að huga að almannaheill og þjóðarhag og það á við um okkur framsóknarmenn alla.

Ég ætla að geyma spurningar þar til í seinna andsvari.