144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[19:26]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur prýðisræðu. Hún velti upp mörgum þörfum spurningum og fór vel yfir tímalínuna og þann sjö ára bardaga sem hefur verið talað um hér í umræðum um málið. Við erum að ræða þessi tvö frumvörp samhliða, um stöðugleikaskattinn annars vegar og hins vegar um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki sem snúa að því að slitastjórnum verði auðveldað að ljúka slitum og freista þess að leita nauðasamnings. Það má horfa á þetta þannig að út frá þessum tveimur frumvörpum birtist úrlausn eða þessi áætlun, þ.e. rammi um valfrjálsa leið, hvaða leið er hægt að fara. Undirliggjandi blasir auðvitað greiðslujafnaðarvandinn við þegar þessar áætlanir hafa verið settar fram, sem er ekkert umsemjanlegt, og allt það umfang sem er gríðarlegt. Heildarumfangið er 1.200 milljarðar og þar af fjárhæð slitabúa 900 og áætlaðir 300 milljarðar í aflandskrónur.

Af því að hv. þingmaður var að ræða tímalínuna þá ætla ég hér í fyrra andsvari að koma aðeins inn á hana. Ef við horfum á þessi sjö ár þá voru neyðarlögin gríðarlega mikilvæg viðbrögð og stóðust alla ágjöf. Síðan má segja að 12. mars 2012, þegar við lokum inni eignir slitabúanna, hafi reynst dýrmætur (Forseti hringir.) og sú áætlun sem birtist hér þannig að þetta spannar (Forseti hringir.) þrjár ríkisstjórnir. Hvernig horfir þessi tímalína við hv. þingmanni?