144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og samningar um þinglok.

[10:17]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég held að það sé einsýnt að hæstv. ráðherrar eru orðnir mjög lúnir eftir veturinn og eru kannski komnir í andlegt sumarfrí úr því að einungis tveir þeirra treysta sér til að mæta í dag í óundirbúnar fyrirspurnir. Hér hafa ekki verið sérstakar umræður um alllangt skeið eða síðan starfsáætlun var tekin úr sambandi. Hér eru ekki undirbúnir fyrirspurnatímar þannig að það er alveg ljóst að hæstv. ráðherrar eru orðnir mjög þreyttir á að mæta í þingið, það tekur greinilega mikið á. Það væri því óskandi að þeir sýndu ákveðið frumkvæði í því að reyna að ná samningum og viðræðum um það hvernig við ætlum að ljúka þingstörfum úr því að þetta álag er orðið þeim nánast ofviða. Ég lýsi því ákveðnum áhyggjum af heilsufari ráðherra, fyrir utan auðvitað hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra sem er ávallt til svara í óundirbúnum fyrirspurnatíma, svo það sé nú sagt. Ég lýsi yfir ákveðnum áhyggjum af þreytu hæstv. ráðherra og ég held að þeir ættu að nýta þá fáu dropa sem þeir eiga eftir á tankinum til að leggja eitthvað fram til að komast að samkomulagi um að ljúka þingstörfum, ég held að þeim dropum væri vel varið.