144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og samningar um þinglok.

[10:18]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum að keyra eitthvert prógramm hérna sem enginn veit nákvæmlega hvað er og það er heilmikið af verkefnum sem nefndirnar hafa á sinni könnu og þeim er skammtaður klukkutími hér og klukkutími þar sem er engan veginn nægjanlegt og er gestum heldur ekki boðlegt þegar menn þurfa að hlaupa út af miðjum fundum eins og gerðist í morgun.

Mig langar þess vegna að benda á að það er tvennt í þessari stöðu. Það er annaðhvort að semja um þinglok, það hefur ekki gengið núna í tólf daga frá því starfsáætlun rann út, eða að setja nýja starfsáætlun og menn fari að vinna almennilega eftir einhverju plani. Ég held að annað hvort þurfi að gerast í dag. Ég hvet forseta til að fara að setja niður fundatöflu, setja niður nýja starfsáætlun þannig að við getum farið að vinna eins og fólk ef við eigum að vera hér áfram, vegna þess að áframhald af því sama gengur ekki og er ekki nokkrum boðlegt.