144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og samningar um þinglok.

[10:27]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er miður að upplifun okkar þingmanna sé sú að þinginu sé stjórnað af hæstv. forsætisráðherra. Það er miður að við séum ekki komin lengra en svo að ekki liggi fyrir einhver rammi utan um það hvenær við ljúkum þingstörfum. Það kom mjög skýrt fram í máli hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur að við eigum að sjálfsögðu, þótt við séum þingmenn, fjölskyldur og það er til háborinnar skammar að maður geti ekki einu sinni útskýrt fyrir börnum sínum um það bil hvenær við getum eytt tíma með þeim. Ég þarf að segja við mín börn: Ég hef ekki hugmynd um hvenær þetta er búið, við þurfum að kansellera öllu í sumar. Það er það sem ég þarf að segja. Er þetta boðlegt, forseti? Nei. Og er það boðlegt að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hæstv. forsætisráðherra, (Forseti hringir.) stjórni þinginu en ekki forseti alls þings? Nei. Ég skora á forseta að grípa í taumana með þetta nú þegar.