144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og samningar um þinglok.

[10:34]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ef hæstv. forsætisráðherra er ekki hæfur eða vill ekki sýna þá forustu sem hann á að sýna sem forsætisráðherra og leggja upp hvaða mál það eru sem hann telur að hann og ríkisstjórn hans vilji klára að ganga frá á þessu þingi sem, eins og margoft hefur verið bent á, er nú þegar komið eina 12–13 daga fram yfir starfsáætlun, og vill ekki ganga til viðræðna við stjórnarandstöðuna um hvernig eigi að ljúka málum hérna, þá er ekki hægt að gera annað en að fara þess á leit við hæstv. forseta þingsins að hann setji starfsáætlun aftur í gang og við förum að vinna eðlilega á þessu þingi, þar með talið að vera með fyrirspurnatíma þar sem liggja fyrir skriflegar fyrirspurnir til munnlegs svars sem og sérstakar umræður. Ef við eigum að vera hérna að vinna í sumar, gott og vel, (Forseti hringir.) verum þá með eitthvert almennilegt plan um hvernig við ætlum að vinna.