144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

breytingar á stjórnarskrá.

[10:36]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra út í málefni stjórnarskrárinnar og stjórnarskrárbreytinga. Nú hefur verið starfandi stjórnarskrárnefnd frá byrjun þessa kjörtímabils með fulltrúum allra flokka sem hefur unnið að tillögum um auðlindaákvæði í stjórnarskrá, um rétt almennings til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin málefni, um ákvæði umhverfisréttar og um framsal valdheimilda og er það í takt við það erindisbréf sem við fengum frá hæstv. forsætisráðherra á sínum tíma. Nefndin hyggst svo halda áfram sinni vinnu við önnur málefni. En nú ber það til að nefndin stefnir að því að ljúka þessum tillögum þannig að þær geti orðið tilbúnar til framlagningar hér næsta haust.

Hæstv. fjármálaráðherra skrifaði grein á dögunum þar sem hann viðraði þá skoðun að hann teldi æskilegt, ef sátt næðist um slíkar tillögur, að þjóðaratkvæðagreiðsla gæti farið fram um þær samhliða forsetakosningum sem væntanlega verða haldnar sumarið 2016, og er það í takt við bráðabirgðabreytingarákvæði sem er í stjórnarskrá til ársins 2017 og var samþykkt hér að tillögu minni og hv. þingmanna Árna Páls Árnasonar og Guðmundar Steingrímssonar.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann hafi sömu væntingar og hæstv. fjármálaráðherra um að þessi atkvæðagreiðsla geti farið fram og við getum þá hugsanlega náð fram þeim breytingum sem stefnt var að. Og hvernig hann sjái líka fyrir sér framhald þessarar vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar, hvort hann eigi jafnvel von á því eða hvort hann hafi væntingar til þess að nefndin muni leggja til frekari breytingar fyrir lok kjörtímabilsins og hvort ekki sé ástæða til þess, að mati hæstv. ráðherra, að breyta þessu breytingarákvæði með varanlegum hætti, því að það er auðvitað eingöngu inni núna á þessu kjörtímabili, að þjóðin sem sagt samþykki breytingar en ekki tvö þing.