144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

sala banka til erlendra aðila.

[10:41]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í Fréttablaðinu í dag er verið að fjalla um afleiðingar af þeim málum sem ríkisstjórnin kynnti á mánudaginn. Það er alveg klárt að mikið af eignum mun skipta um hendur í framhaldi af þessum aðgerðum og í Fréttablaðinu er fjallað um að sett hafi verið skilyrði um erlent eignarhald til fimm ára. Þar lítur út fyrir að ríkisstjórnin hafi undirgengist það að Íslandsbanki verði ekki í eigu innlendra aðila a.m.k. næstu fimm árin. Það kemur fram í þessari frétt að bréf hafi komið á mánudaginn rétt áður en blaðamannafundurinn var haldinn þar sem þessi krafa er gerð af hálfu kröfuhafanna sjálfra. Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í þetta vegna þess að það hefur komið fram af hálfu formanns efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Frosta Sigurjónssonar, að hann telji það ekki samrýmast hugmyndum um efnahagslegan stöðugleika að selja bankann úr landi. Þá hefur það líka komið fram í umræðunni um þessi mál á undanförnum árum að það að selja banka á tiltölulega lágu verði til erlendra aðila sem horfa meira til skamms tíma og vilja hugsanlega miklar arðgreiðslur í framhaldi leysi ekki vandann sem slíkan heldur fresti honum eingöngu.

Í sjálfu sér hef ég ekkert á móti erlendri fjárfestingu því að hún getur undir ýmsum kringumstæðum verið jákvæð. Hins vegar fara ákveðnar bjöllur að hringja þegar menn eru farnir að setja skilyrði um að eignarhaldið sé erlent til a.m.k. einhvers ákveðins tíma. Mig langar að biðja hæstv. forsætisráðherra um að skýra þetta fyrir okkur. Hvað felst í þessum skilyrðum? Hafa menn fallist á þessi skilyrði? Hvað þýðir (Forseti hringir.) þetta í raun og veru?