144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

sala banka til erlendra aðila.

[10:44]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir tækifærið til að skýra þetta mál.

Með stöðugleikaskilyrðunum svokölluðu er ekki verið að veita kröfuhöfum eða slitabúunum neitt tækifæri til þess að setja skilyrði sjálf. Þau geta viðrað hugmyndir, en það breytir í engu því að ef þau ætla að klára nauðasamninga og ljúka málum sínum með þeim hætti verða þau að uppfylla öll stöðugleikaskilyrði stjórnvalda og þau eru óumsemjanleg. Með öðrum orðum, ef þeir fullnægja ekki öllum stöðugleikaskilyrðunum á þann hátt sem lýst er, þá nægir það ekki til þess að þeir fái samþykktan nauðasamning og þá fara þeir einfaldlega gegnum skattlagningaraðferðina. Þeir geta velt upp einhverjum hugmyndum, en það kemur alltaf til þess að fjármálaráðherra og Seðlabankinn taki afstöðu til þess, en eingöngu ef það er viðbót við það að uppfylla stöðugleikaskilyrðin.

Hvað varðar bankana, nýju bankana og stöðugleikaskilyrðin þá felast þau fyrst og fremst í því að hugsanleg verðmætisaukning þessara fyrirtækja þegar þau verða seld, sama hvert þau verða seld, og verði þau seld fyrir meiri pening en þau eru bókfærð á núna, þá mun ríkið fá milli 50 og 75% af þeim hagnaði, af þeirri virðisaukningu. Það er það sem þessir aðilar þurfa að uppfylla og vangaveltur þeirra um hvers lenskir eigendur bankanna verði eftir hversu langan tíma breyta engu þar um.