144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

sala banka til erlendra aðila.

[10:46]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þessi svör. Mig langar engu að síður að spyrja hann hvert álit hans sé á þessu. Nú hefur formaður efnahags- og viðskiptanefndar sagt að hann telji það ekki þjóna hagsmunum okkar Íslendinga ef þessir bankar verða í eigu erlendra aðila þegar þessu öllu saman er lokið, þegar hringekjan hefur farið af stað. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra um afstöðu hans gagnvart því. Menn hafa líka haldið því fram að verði bankar seldir á lágu verði til erlendra aðila þá séu menn ekki að leysa vandann heldur séu þeir eingöngu að fresta honum og færa hann til. Mig langar að biðja hæstv. forsætisráðherra að vera kannski aðeins skýrari í sambandi við það hvernig menn geti girt fyrir það. Það er algjörlega ljóst að ef menn ætla að koma inn til skamms tíma, og ég held að við séum öll sammála um að fimm ár séu frekar skammur tími í bankarekstri, þá hljóti menn að ætla að fá eitthvað út úr því, þ.e. annaðhvort í formi arðgreiðslna eða þeir telja að (Forseti hringir.) söluverðið geti hækkað allverulega.