144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

vistvænar bifreiðar og fordæmi ríkisins.

[10:50]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að stjórnvöld ættu að halda áfram eins og þau hafa verið að gera að undanförnu, undanfarin ár, að stuðla að fjölgun vistvænna bíla á Íslandi með jákvæðum hvötum. Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá hversu hröð og góð þróun hefur átt sér stað hvað varðar rafbílana, reyndar á öðrum sviðum líka, en rafbílum hefur fjölgað töluvert á skömmum tíma þótt við vildum auðvitað sjá enn þá meiri hraða í fjölgun. En allt bendir til þess að sú fjölgun muni halda áfram enda eru þessir bílar smátt og smátt að verða bæði hagkvæmari, áreiðanlegri og ódýrari og verða því mjög samkeppnishæfir við bensín- og dísilbíla.

Hvað varðar spurningu um fordæmi ríkisins þá tel ég æskilegt að ríkið leitist við að sýna gott fordæmi. Það gilda þó ákveðnar reglur sem bílar þurfa að uppfylla eftir því hvaða hlutverki þeir gegna. Meðal annars gilda tilteknar reglur um ráðherrabíla, en það er ekki útilokað að það séu að koma á markaðinn rafbílar sem uppfylli þær reglur. Ég held reyndar að það hafi verið til skoðunar sérstaklega. Það er ekki rétt að ég sé að fara að kaupa mér nýjan bíl, virðulegur forseti, það verður einhver bið á því, en hins vegar er hugsanlegt að einhver endurnýjun verði á ráðherrabílum áfram, enda þeir orðnir gamlir og sumir úr sér gengnir. Þá væri æskilegt að menn skoðuðu möguleikann á rafbílum og eins og ég segi, virðulegi forseti, held ég að ég fari rétt með að menn hafi einmitt verið að gera það.