144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

endurskoðun laga nr. 9/2014.

[10:54]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef nú spurt að þessu áður, en þá er bara að halda áfram ef ekkert gerist. Mig langar til að spyrja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hvað líði framlagningu frumvarps til endurskoðunar á lögum nr. 9/2014. Það átti að endurskoða þessi lög fyrir áramót. Nú erum við að koma að þinglokum og ekki bólar á neinu frumvarpi um að lögin verði endurskoðuð. Það er alveg ljóst að þessi lög hafa ekki gagnast þeim sem þau áttu að gagnast, þ.e. einstaklingum sem eiga ekki annan kost í skuldavanda sínum og erfiðleikum en að fara í gjaldþrot. Ríkið ætlaði að styðja þetta fólk með því að greiða 250 þús. kr. sem kostar að fara í gjaldþrot, þ.e. tryggingin sem þarf að leggja fram. Við samþykktum hérna lög sem áttu að auðvelda fólki þetta. Það var alveg ljóst af tölum sem við fengum á síðasta ári að lögin gagnast ekki vegna þess að 51% var hafnað. Það er ljóst að það þarf að endurskoða lögin. Mig langar til að spyrja ráðherrann hvað því líði.

Síðan átti ráðherrann að setja reglugerð um þetta mál og hún er ekki enn þá komin fram. Allt gerðist þetta í janúarlok 2014. Mig langar til að spyrja ráðherrann: Hvað líður því að gera það sem gera á í þessum málum?